Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Þrístapar tilnefndir sem staður ársins

Áfangastaðurinn Þrístapar í Vatnsdal í Húnavatnssýslu eftir Gagarín, Landslag og Harry Jóhannsson er tilnefndur sem staður ársins á Hönnunarverðlaununum 2024.

Áfangastaðurinn Þrístapar í Vatnsdal í Húnavatnssýslu eftir Gagarín, Landslag og Harry Jóhannsson er tilnefndur sem staður ársins á Hönnunarverðlaununum 2024. Verðlaunin verða afhent 7. nóvember.

Frá þessu segir á vef Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Þar segir í rökstuðningi dómnefndar:

Á Þrístöpum hefur tekist einkar vel að búa gestum eftirminnilega upplifun. Saga, umhverfi og hönnun vinna saman og þjóna viðfangsefni sínu á áhrifaríkan en látlausan hátt. Áfangastaðurinn er hannaður í samvinnu Gagaríns, Landslags og Irmu.

Á Þrístöpum fór fram síðasta opinbera aftaka á Íslandi, árið 1830, þegar hálshöggvin voru þau Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson. Saga þeirra hefur orðið mörgum að yrkisefni í gegnum árin. Með uppbyggingunni á Þrístöpum gefst áhugasömum nú kostur á að upplifa söguna utandyra, í náttúru og andrúmi þessa sögustaðar.

Landslag og veður eru stór hluti upplifunarinnar. Gestir fylgja göngustíg að aftökustaðnum og feta þannig sjálfir í spor sögunnar. Vönduð steinhleðsla og haglega framsett fræðsluefni ramma inn svæðið. Á staðnum eru fáar minjar frá aftökunni, en á móti því kemur að tekist hefur að skapa vissa ljóðrænu í rýminu á staðnum sjálfum.

Hönnuðirnir hafa valið leiðir sem valda lágmarks raski á umhverfinu en styðja vel við staðarvitund, m.a. með vali á efni sem breytist með tímanum. Svæðið er öllum aðgengilegt, allan ársins hring.

 Sveitarfélagið Húnabyggð hlaut Hvatningarverðlaun á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi í fyrra, fyrir uppbyggingu á áfangastaðnum á Þrístöpum en það var í fyrsta sinn sem sveitarfélag fær viðurkenningu á Uppskeruhátíð. Í umsögn MN um verkefnið sagði meðal annars: 

Þetta er í fyrsta skipti sem viðurkenning á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar er afhent til sveitarfélags en nú er rík ástæða til þar sem Húnabyggð, áður Húnavatnshreppur hefur staðið að miklum metnaði að uppbyggingu á sögustaðnum Þrístöpum. Verkefnið var sett í fyrstu áfangastaðaáætlun Norðurlands og þróað í góðu samstarfi við Markaðsstofuna. Með þessari uppbyggingu er komið nýtt aðdráttarafl á Norðurlandi, byggt á menningu og sögu, á svæði þar sem nauðsynlegt var að byggja upp nýjan segul sem væri aðgengilegur bæði einstaklingum og hópum. Uppbyggingunni er ekki lokið en nú þegar er þessi segull að verða þekktur meðal bæði innlendra og erlendra ferðamanna og býr til ástæðu til að staldra við, kynna sér sögu og náttúru svæðisins auk þess sem Þrístapar skapa tækifæri fyrir nálæga aðila á uppbyggingu ferðaþjónustu. Verkefni sem þetta er til fyrirmyndar og vonandi að fleiri sveitarfélög fylgi á eftir með kraftmikilli uppbyggingu í ferðaþjónustunni.