Condor hættir við áætlunarflug til Akureyrar og Egilsstaða
Þýska flugfélagið Condor hefur ákveðið að hætta við allt flug frá Frankfurt til Akureyrar og Egilsstaða í sumar. Eins og fram kemur í meðfylgjandi fréttatilkynningu frá Isavia, eru ástæðurnar meðal annars þær að markaðssetning hófst ekki nógu snemma og einnig breyttust markaðsforsendur. Mikil vinna hefur verið unnin í samstarfi við Austurbrú og Íslandsstofu í vetur við að kynna þessi flug og bindum við vonir við að hún muni nýtast áfram í samtali við Condor eða önnur flugfélög.
Norðlensk ferðaþjónusta hefur á undanförnum árum sýnt að Norðurland er áfangastaður sem gott er að heimsækja allan ársins hring. Millilandaflug hefur aukist með hverju ári, fyrir utan Covid-árin, frá því að Flugklasinn Air 66N tók til starfa og staðan er áfram sú að framboð á millilandaflugi hefur aldrei verið meira frá Akureyrarflugvelli. Niceair og Edelweiss bjóða flug út í heim í og Voigt Travel verður með ferðir frá Hollandi í sumar og mun auka framboðið á vetrarferðum á næsta ári. Auk þess eru önnur verkefni í pípunum. Þetta hefur verið langhlaup, og verður áfram, þar sem þolinmæði og þrautseigja skila árangri.
Fréttatilkynning frá Isavia: Condor hættir við áætlunarflug til Akureyrar og Egilsstaða í sumar
Flugfélagið Condor hefur tilkynnt að hætt hafi verið við áætlunarflug til Akureyrar og Egilsstaða frá Frankfurt sem hefjast átti um miðjan maí og standa fram í október. Mikil vinna hefur verið unnin í tengslum við flugið af hálfu heimamanna og Condor og stefnt er að því að nýta þann undirbúning fyrir árið 2024 en það skýrist á næstu vikum.
Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, segir: „Því miður gekk verkefnið með Condor ekki upp í ár en við bindum vonir við að af millilandaflugi milli Þýskalands og Norður- og Austurlands verði árið 2024. Það eru margir þættir sem leiddu til þessar niðurstöðu, markaðssetningin erlendis hófst ekki nógu snemma til að ná flugi fyrir árið í ár og breyttar markaðsforsendur áttu einnig sinn þátt í að svona fór. Áhugi flugfélaga á millilandaflugi til Norður- og Austurlands fer stöðugt vaxandi, við finnum það mjög sterkt á ferðakaupstefnum og vinnustofum erlendis.”
Tilkynnt var um áform Condor í júlí í fyrra. Að þeirra mati hefði fyrirvarinn þurft að vera enn lengri til að tryggja betur bókanir frá ferðaskrifstofum.
„Reynslan sýnir að þetta er langhlaup og flugfélög eru varkár í sínum ákvörðunum um nýja áfangastaði og flugleiðir og það þarf töluvert úthald til að láta hlutina ganga upp. Það er afar mikilvægt að halda áfram að bjóða upp á aðgengi að landinu í gegnum nýjar gáttir í takti við stefnu stjórnvalda um að efla ferðaþjónustu í öllum landshlutum. Það verður áfram helsta markmið okkar og sem fyrr segir er áhuginn greinilega til staðar. Framboð á millilandaflugi um Akureyrarflugvöll hefur aldrei verið meira og ferðaskrifstofur sem bjóða ferðir þangað hafa verið að fjölga ferðum, svo dæmi sé tekið.“ segir Sigrún Björk.
,,Við höfum heyrt frá Condor að þau hafi fulla trú á áfangastöðum á Íslandi, sér í lagi á Austur- og Norðurlandi. Rannsóknir Ferðamálastofu sýna að ferðamenn sem hingað koma hafa mikinn áhuga á að heimsækja landið aftur og skoða þá nýja landshluta og þýski markaðurinn hefur verið einn af lykilmörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu,” segir Sigrún Björk að lokum.