Flugklasinn Air66N
Flugklasinn Air 66N er samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi, sveitarfélaga, stofnana og annarra hagsmunaaðila í samfélaginu. Klasinn er leiðandi í að markaðssetja og kynna Akureyrarflugvöll sem nýjan áfangastað fyrir millilandaflug allt árið um kring með það að markmiði að fjölga ferðamönnum á Norðurlandi og lengja dvöl þeirra á svæðinu. Verkefnið fór af stað 2010 og í október það ár var ráðinn verkefnastjóri til að annast undirbúning að verkefninu í samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila. Í október 2011 var klasinn svo formlega stofnaður. Verkefnið hefur frá upphafi verið hýst hjá Markaðsstofu Norðurlands (MN).
Framtíðarsýn Air 66N er að stöðug eftirspurn sé eftir ferðaþjónustu á Norðurlandi allt árið með reglulegu millilandaflugi á Akureyrarflugvöll þar sem nýr áfangastaður á Íslandi hafi verið opnaður.