Fréttatilkynning - Þingmannafundur um flugmál 08.04.15
Í gær var haldinn fundur um 65 sveitarstjórnarmanna og þingmanna á Akureyri um opnun fleiri gátta inn í landið fyrir erlenda ferðamenn. Á fundinum kom fram mikill einhugur meðal fundarmanna um mikilvægi þess að opna fleiri gáttir inn í landið. Mikil samstaða var einnig um að aðkoma heimamanna væri nauðsynleg í vinnunni. Skipun starfshóps á vegum forsætisráðuneytisins var fagnað, en jafnframt lögð áhersla á að út úr vinnunni komu haldbær gögn og ákvarðanataka stjórnvalda í kjölfarið.
Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við Háskólann á Akureyri, flutti erindi um áhrif þess að hefja millilandaflug á Norður- og Austurland og hvernig þjóðarbúið er að verða af tekjum, með því að nýta ekki þá innviði og getu sem ferðaþjónustan á Norður- og Austurlandi býr yfir. Ætla má að ferðamönnum fjölgi samfara opnun nýs áfangastaðar. Ef 100.000 fleiri gestir koma til landsins um nýja gátt, er það líklegt til að auka landsframleiðslu um 1% eða 18 milljarða króna.
Á fundinum héldu erindi fulltrúar Air 66N – flugklasans á Norðurlandi, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og flugklasans á Austurlandi. Í máli þeirra kom fram að fjölgun ferðamanna til landsins hefur ekki skilað sér út fyrir suðvestur hluta landsins og geta ferðaþjónustunnar á Norður- og Austurlandi er mjög vannýtt. Á Norðurlandi eru t.a.m. meira ein milljón gistinátta ónýttar á ársgrundvelli. Svæðið er tilbúið að taka við fleiri ferðamönnum og innviðir til staðar til þess að hefja flug. Nauðsynlegt er hins vegar að taka ákvörðun um að opna nýjan áfangastað og gera áætlun um uppbyggingu til framtíðar.
Einnig kom fram að staðsetning bolfiskvinnslu á Íslandi ræðst orðið að miklu leyti af nálægð við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Útflutningur á ferskum fiski er stór atvinnugrein og undanfarin ár hafa fiskvinnslufyrirtækin verið að færa vinnslu sína nær Keflavík. Ný gátt hinu megin á landinu myndi breyta þessu landslagi og sporna við flutningi fólks og fyrirtækja í sjávarútvegi á SV hornið.
Kynning var á áformum forsætisráðuneytis um skipun starfshóps til þess að fjalla um möguleika á nýtingu á fleiri alþjóðaflugvöllum landsins en Keflavík. Skipað verður í starfshópinn á næstu dögum og fyrirhugað að hann ljúki störfum eftir þrjá mánuði.
Að loknum framsöguerindum tóku fjölmargir fundarmenn til máls og lýstu yfir stuðningi við verkefnið og fóru yfir sínar áherslur. Þar bar hæst samstarf og samvinnu, mikilvægi markaðssetningar og nýjar áherslur þar, beina aðkomu landshlutanna að uppbyggingunni og brýna þörf þess að taka ákvarðanir um aukna nýtingu alþjóðaflugvalla landsins.
Að fundinum stóðu Markaðsstofa Norðurlands, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Samtök Sveitarfélaga á Norðurlandi Vestra, Eyþing, Austurbrú og Fjórðungssamband Vestfirðinga. Á fundinn voru boðaðir þingmenn Norðvesturkjördæmis og Norðausturkjördæmis, fulltrúar ráðuneyta, fulltrúar sveitarstjórna, embættismenn og aðrir sem að málinu koma.
Tilefni fundarins var að ræða um mikilvægi þess að opna fleiri gáttir inn í landið. Þetta er orðið eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar og ekki lengur bara málefni ferðaþjónustunnar, heldur allra landsmanna. Ferðaþjónustan á Norðurlandi hefur unnið að framgangi flugs um Akureyrarflugvöll í gegnum flugklasann Air 66N frá árinu 2011 með stuðningi og samstarfi sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélaga og ferðaþjónustufyrirtækja. Á Austurlandi er að sama skapi unnið markvisst að eflingu millilandaflugs um Egilsstaðaflugvöll í gegnum flugklasa sem rekinn er af Austurbrú.
Erindi fundarins og annað efni má sjá hér að neðan: