Fréttaskot í apríl
Þann 3. maí næstkomandi verður Vorráðstefna Markaðsstofu Norðurlands og Flugklasans Air 66n haldin í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Ráðstefnan hefst kl. 14 og lýkur kl. 17, en erindi framsögumanna munu meðal annars fjalla um flugferðir bresku ferðaskrifstofunnar Super Break og áhrif þeirra, tengiflug Air Iceland Connect á milli Keflavíkur og Akureyrar, innanlandsflug almennt og millilandaflug um Akureyrarflugvöll. Dagskráin verður nánar auglýst síðar, sem og skráning á ráðstefnuna.
Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnisstjóri Flugklasans, er svo á leið á eina stærstu ráðstefnuna þar sem áfangastaðir og flugfélög para sig saman, Routes Europe sem haldin verður á Spáni dagana. 22.-24. apríl.
Komdu og hafðu áhrif á þróun upplifana á Arctic Coast Way!
Vinnustofur Blue Sail og Arctic Coast Way verða haldnar í næstu viku, en skráning í þær stendur nú yfir. Markmiðið með vinnustofunum er að þróa og kalla fram þær upplifanir sem eru í boði fyrir ferðamenn á Arctic Coast Way, eða Norðurstrandarleið. Fulltrúar Blue Sail fóru vel yfir það hvað þessar vinnustofur munu snúast um í myndbandi sem við birtum á Facebook í síðustu viku, smellltu hér til að sjá það. Endilega komdu og taktu þátt, og hafðu áhrif á það hvernig ferðamenn upplifa Arctic Coast Way. Nánari upplýsingar og skráningu má finna með því að smella hér.
Helmingur erlendra sumarferðamanna kom á Norðurland
Á árinu 2017 má áætla að um 573 þúsund erlendir ferðamenn hafi komið á Norðurland, eða 29% af heildarfjölda erlendra ferðamanna sem komu til Íslands á árinu. Næturgestir voru 456 þúsund, sem gistu að meðaltali í rúmlega þrjár nætur. Samtals voru seldar gistinætur á síðasta ári 1.413 þúsund, sem er um 11% af heildarfjölda gistinótta erlendra ferðamanna. Þó nokkur munur er á fjölda þeirra sem kemur að sumri til annars vegar og vetri til hins vegar.
Þetta kemur fram niðurstöðum rannsóknar sem fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf. vann fyrir Markaðsstofu Norðurlands nú í apríl. Í samantektinni er farið yfir fjölda erlendra ferðamanna á Norðurlandi á árunum 2010-2017, ferðamáta þeirra og fjölda gistinátta. Þessum upplýsingum er sömuleiðis skipt upp eftir svæðum á Norðurlandi. Með því að smella hér má lesa meira um rannsóknina og skoða samantekt.
Allir geta sent inn viðburði
Skráningu viðburða á heimasíðuna okkar hefur verið breytt á þann veginn að nú getur hver sem er sent inn viðburð sem viðkomandi vill fá birtan á síðunni. Starfsmenn MN fara síðan yfir það sem sent er inn og birta eftir því sem við á og lagfæra texta ef þess þarf. Athugið að upplýsingar þurfa að vera bæði á íslensku og ensku, góð mynd þarf að fylgja með og passa þarf upp á heiti viðburðarins sé rétt og tímasetning. Með því að smella hér kemstu inn í eyðublaðið sem þarf að fylla út fyrir innsenda viðburði. Ef einhverjar spurningar vakna má senda tölvupóst á info@nordurland.is.
Skíðaferð Ski Iceland 5x5
Skíðaferð Ski Iceland 5x5 fór fram í síðustu viku og tókst vel. Ferðin er ætluð þeim sem vilja stuðla að eflingu vetrarferðamennsku með skíði og skíðasvæði í forgrunni. Ski Iceland sér um allt sem tengist ferðinni, skíðabúnað, skíðapassa, mat og drykk en að Ski Iceland standa skíðasvæðin í Hlíðarfjalli, Skarðsdal, Tindastól, Böggvisstaðafjalli og Ólafsfirði. Farið var og skíðað á öllum þessum svæðum að Ólafsfirði undanskildum. Gisting og flug er hins vegar á kostnað þátttakenda, sem í ár voru um 40 talsins.