Fréttaskot - Viðtalstímar Markaðsstofunnar
Super Break lendir á föstudag
Nú styttist í komu fyrstu ferðamannanna til Akureyrar á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break. Á föstudag lendir fyrsta flugvélin á Akureyrarflugvelli og um leið hefst nýtt tímabil í sögu ferðaþjónustu á Norðurlandi. Við hlökkum mikið til! Starfsmenn Super Break sem verða staðsettir á Akureyri næstu vikurnar eru nú þegar komnir í bæinn og eru farnir að undirbúa komu fyrstu ferðamannanna.
Viðtöl við starfsmenn Markaðsstofunnar
Í janúar og febrúar verða starfsmenn Markaðsstofunnar á ferð um landshlutann og bjóða öllum þeim sem hafa áhuga til viðtals um þau verkefni sem verið er að vinna að á vegum stofnunarinnar, eins og DMP áfangastaðaáætlun, Flugklasann Air 66N, Norðurstrandarleið, Okkar Auðlind og fleira. Hægt verður að panta 15-20 mínútna langa fundi með þeim Arnheiði Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra og Birni H. Reynissyni verkefnastjóra DMP.
DMP stöðuskýrsla komin út
Í vikunni kom út stöðuskýrsla vegna DMP-verkefnisins sem Markaðsstofa Norðurlands vinnur að, ásamt Ferðamálastofu, Selasetri Íslands og Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga. Í skýrslunni er farið yfir þá vinnu sem nú þegar er lokið, farið er yfir hvað er framundan og hverjar áherslur verkefnisins verða.
Í skýrslunni kemur einnig fram hver framtíðarsýn Norðurlands er, en bæði hún og val á forgangsverkefnum er afrakstur svæðisfunda sem haldnir voru síðasta haust vegna DMP. Fundirnir voru vel sóttir og þakkar Markaðsstofa Norðurlands þátttakendum kærlega fyrir þeirra framlag.
Skýrsluna má lesa með því að smella hér.
Skilaboð frá samstarfsfyrirtækjum
Kaffi Kú í Eyjafjarðarsveit var valið til að taka þátt í Startup Tourism 2018 og óskar Markaðsstofan eigendum fyrirtækisins til hamingju með það. Hugmyndin sem þau lögðu fram snerist um þróun á fræðsluappi um landbúnað, Eyjafjarðarsveit og starfsemina í fjósinu.
Eigendur fyrirtækisins vilja koma því á framfæri að þau geta tekið á móti fleiri hópum og bjóða af því tilefni upp á ókeypis fræðslu um fjósið sjálft, skoðunarferð um það og smakk á mjólk beint úr spena. Hægt er að hafa samband við þau með því að hringja í síma 868-5072 eða senda póst á naut@nautakjot.is