Rögnvaldur Már ráðinn í starf verkefnisstjóra Kjarnaveita
Í vetur var auglýst staða verkefnisstjóra fyrir Kjarnaveitur og útgáfu. Starfið felur í sér fjölbreytt verkefni í markaðssetningu og þróun á upplýsingaveitum fyrir ferðamenn. Í starfið var ráðinn Rögnvaldur Már Helgason og hóf hann störf um miðjan maí.
Rögnvaldur er með B.A. gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri. Hann starfaði sem fréttamaður hjá RÚV á Norðurlandi frá árinu 2014, þar sem hann sinnti fréttavinnslu fyrir sjónvarp, útvarp og vef. Þar áður var hann blaðamaður hjá DV og hafði meðal annars umsjón með útgáfu tekjublaðs DV sumarið 2014. Rögnvaldur hefur einnig verið blaðamaður hjá Skessuhorni á Vesturlandi og sinnt skrifum um sjávarútveg og útivist fyrir útgáfu almannatengslafyrirtækisins Athygli. Þá hefur hann unnið við frétta- og íþróttaljósmyndun. Áður starfaði Rögnvaldur sem sölumaður hjá Adidas á Íslandi og gjaldkeri hjá Íslandsbanka.
Christiane áfram með „Arctic Coast Way“
Fjármögnun fyrir annan hluta verkefnisins „Arctic Coast Way“ er nú lokið og Christiane Stadler mun áfram stýra því verkefni, eins og hún hefur gert síðan í nóvember á síðasta ári.
Christiane er landfræðingur og útskrifaðist með meistaragráðu frá háskólanum í Augsburg í Þýskalandi. Meðfram því námi sérhæfði hún sig í umhverfisvernd og landnotkun. Þá hefur hún einnig lokið námi í blaðamennsku við „Frei Journalisten Schule“ í Berlin.
Hún stundaði rannsóknir og hélt námskeið um loftslagsbreytingar í mörgum stofnunum í Þýskalandi og Vestur-Afríku. Að því loknu varð hún verkefnisstjóri hjá almanntengslafyrirtækinu Intention þar sem hún sinnti viðskiptavinum í ferðamennsku, náttúruvernd og íþróttum. Ásamt öðrum vann hún að því að skapa markaðsherferð fyrir „UNESCO Biosphere Reserve Kafa“ þar sem aðaláherslan var á sjálfbæra ferðaþjónustu.
Frá árinu 2007 hefur hún unnið sem fararstjóri og farið með hópa um allt Ísland og unnið fyrir ýmsar þýskar og íslenskar ferðaskrifstofur að því að búa til ferðir og markaðsefni. Hún starfaði einnig í tvö sumur í upplýsingamiðstöðvum á Húsavík og Akureyri.