Þátttökuskilyrði fyrir ACW kynnt
Skilyrði fyrir þátttöku í verkefninu Arctic Coast Way (ACW) hafa nú verið betur skilgreind frá því að hugmyndir um þau voru fyrst kynnt í febrúar árið 2017. Verkefnið er í sífelldri mótun og þróun en skilyrðin eru nú betur sniðin að þörfum verkefnisins en áður.
Slík skilyrði, og reglur um starfsemi í tengslum við ACW, eru nauðsynleg til þess að tryggja þau gæði þjónustunnar sem merkið ACW mun standa fyrir og gestir okkar geta reitt sig á. Með þeim verður einnig meiri samfella á milli ólíkra fyrirtækja sem vilja tengjast ACW, og þá sérstaklega í allri markaðssetningu.
Í skjalinu, sem finna má hér neðst í fréttinni, er farið fyrir öll þessi skilyrði, og í kafla fimm er komið inn á kostnað fyrirtækja við sameiginlega markaðssetningu. Stefnt er að því að sá kostnaður standi undir að mestu undir þróun á markaðssetningu í framtíðinni. Mikil vinna hefur verið lögð í að greina hvernig sú markaðssetning þarf að vera og leitað var allra leiða til þess að kostnaður fyrirtækja við þetta yrði sem minnstur. Verkefnið er þó enn í vinnslu og enn gætu ýmsir þættir breyst og haft áhrif á útreikninginn. Við sjáum fyrir okkur að taflan, sem sést í kafla fimm, verði breytileg og kostnaður gæti einnig mögulega lækkað eftir því sem fleiri fyrirtæki taka þátt eða jafnvel hækkað verði gerð krafa um aukna markaðssetningu. Við munum fylgjast vel með því hver þróunin verður hjá okkar samstarfsfyrirtækjum. Verði breytingar á kostnaði, munum við að sjálfsögðu láta vita af því.
Í töflu fyrir árið 2019 má sjá kostnaðinn við sameiginlega markaðssetningu á næsta ári, og sem fyrr segir var lögð áhersla á að hann yrði sem minnstur og þá sérstaklega þar sem 2019 verður fyrsta árið þar sem ACW verður „opinn.“
Við bjóðum ykkur því nú að kynna ykkur þessi skilyrði betur, en vekjum athygli á því að verkefnið er enn í mótun og því gætu enn orðið einhverjar breytingar. Með þessu hafa samstarfsfyrirtæki betri upplýsingar en áður til að meta hvort þau vilja taka þátt, en við hvetjum auðvitað alla þá sem uppfylla skilyrðin að vera með. Ekki hika að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna, með því að senda póst á netfangið acw@nordurland.is
Að loknum vinnustofum með Blue Sail í september, sem verða þær síðustu í bili, hefst umsóknarferlið fyrir ACW. Það verður kynnt betur þegar nær dregur.