Vinnustofur og ferðakaupstefnur í mars
Starfsfólk Markaðsstofu Norðurlands hefur verið á ferð og flugi í mars.
17.03.2023
Starfsfólk Markaðsstofu Norðurlands hefur verið á ferð og flugi í mars. Íslandsstofa stóð fyrir vinnustofum í Svíþjóð, Noregi og Danmörku í byrjun mánaðar, þar sem rætt var við ferðaskrifstofur og landshlutinn kynntur. Áhugi á beina fluginu frá Kaupmannahöfn til Norðurlands er mikill, það skapar tækifæri í vöruþróun og nýja möguleika í ferðalögum um Ísland.
Svipaða sögu er að segja af ITB, einni stærstu ferðakaupstefnu Evrópu sem haldin er í Berlín. Þangað fóru þau Arnheiður, Hjalti Páll og Katrín og tóku þátt ásamt Íslandsstofu, Austurbrú og íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum. Aukið millilandaflug opnar á nýja möguleika og það var greinilegt á samtölum við ferðaskrifstofur að þær horfa til þess að nýta þá.
Framboð á flugi til Norðurlands hefur enda aldrei verið meira og þau tengsl sem hafa skapast með þáttöku í viðburðum á borð við þessa tvo verða áfram nýtt til þess að vekja athygli á beina fluginu, norðlenskri ferðaþjónustu og Norðurlandi sem áfangastað.