Frá framkvæmdastjóra: „Áfram í gegnum lægðina“
Á síðustu vikum hefur mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir atvinnulífið og heimilin á Íslandi orðið öllum ljóst. Stjórnvöld hafa komið fram með fyrstu tillögur til að aðstoða fyrirtækin yfir erfiðasta hjallann með þá áherslu að verja störf. Þetta er gríðarlega mikilvægt þar sem ferðaþjónustan er stór atvinnurekandi með um 5000 starfsmenn á Norðurlandi á síðasta ári eða um 12% af vinnumarkaðnum. Ferðaþjónustan skiptir miklu máli þegar horft er til byggðaþróunar enda skapar hún ný og spennandi störf á svæðum fjarri höfuðborginni og eykur tekjumöguleika þeirra sem þar búa. Að auki starfa margar konur í ferðaþjónustunni, en oft skortir á atvinnumöguleika þeirra á dreifðari svæðum.
Höggið jafnvel verra úti á landi
Það er gríðarlega mikilvægt að nú standi stjórnvöld vörð um þessa atvinnugrein um allt land og taki í sínum aðgerðum fullt tillit til minni fyrirtækja sem starfa á sérstökum markaði þar sem árstíðarsveiflan er mikil. Því er oft haldið fram í umræðunni að höggið vegna COVID-19 sé minna úti á landi þar sem ekki séu mikil umsvif nú í mars og apríl en það er hins vegar ljóst að höggið getur orðið miklu verra þar sem árstíðarsveiflan er mikil því að afkoma fyrirtækjanna byggir á því að að tekjur náist inn yfir sumarið til að dekka stóran hluta ársins. Allar aðgerðir þurfa að taka mið af því að mögulega verði ekki hægt að ná inn miklum tekjum í sumar, þ.e. að sumarið verði mjög laskað og því ekki von á miklum umsvifum hér á svæðinu fyrir en næsta vor að óbreyttu. Aðgerðir stjórnvalda verða að tryggja fyrirtækjum í ferðaþjónustu á Norðurlandi þann stuðning sem þarf til þess að atvinnugreinin geti staðið af sér þá erfiðleika sem við stöndum nú frammi fyrir og að mögulegt verði að halda áfram að byggja upp öfluga heilsársferðaþjónustu.
Erindi til ráðherra
MN hefur á síðustu vikum komið á framfæri hverjar þarfir fyrirtækjanna á Norðurlandi eru og hver staðan er en þær áherslur má sjá annars vegar í erindi til ráðherra ferðamála frá febrúar og hins vegar í erindi Markaðsstofa landshluta frá 19. mars síðastliðinn, en hlekki á þessi skjöl má finna hér neðst. Þessi erindi byggja á stöðunni eins og hún blasir við eftir samtöl við fyrirtækin á Norðurlandi. Við hvetjum ykkur til að halda áfram að vera í góðu sambandi við okkur, upplýsa okkur um stöðuna og koma til okkar tillögum um aðgerðir.
- Flest fyrirtæki að gera ráð fyrir 40-50% samdrætti á milli ára. Svartasta sviðsmynd gerir ráð fyrir 80% samdrætti sem miðar þá við að sumarið detti nánast alveg út. Hér fyrir norðan er mjög mikil árstíðasveifla ennþá svo ef sumarið fer þá er árið nánast tekjulaust.
- Hjá flestum fyrirtækjum er núna lágönn en hjá sumum þeirra er þetta að hitta beint í háönn, þar má t.d. nefna þyrluskíðaþjónustuna, bæði afþreyingarhlutann og auk þess gististaði og veitingastaði sem þjónusta þeirra viðskiptavini. Þar er um að ræða mjög verðmæta viðskiptavini.
- Ráðningar fyrir sumarið eru alveg stopp.
- Heilsársstarfsmenn eru margir komnir í hlutastarf.
- Reynt er eftir fremsta megni að færa fólk til svo ekki þurfi að koma til uppsagna en þó eru þær byrjaðar.
- Verktakar missa sínar tekjur, þetta er t.d. stór hluti leiðsögumanna og bílstjóra.
- Staða fyrirtækjanna var erfið fyrir COVID-19 vegna áfalla á síðasta ári og erfiðs vetrar. Þar má nefna fall Wow Air, gjaldþrot Super Break og mjög erfiðar samgöngur vegna óveðurs.
- Fyrirtækin eru mörg mjög illa búin varðandi lausafé. Þau eiga því erfitt með að endurgreiða afbókanir eða lifa af í nokkra tekjulausa mánuði.
- Margir eru að loka fyrirtækjum og hætta starfsemi frá og með núna þar sem allar bókanir hafa verið dregnar til baka. Flestir vonast til að geta opnað aftur en það er alveg óljóst.
- Fyrirtækin reyna að sýna sveigjanleika í afbókunarskilmálum innan þess ramma sem þau ráða við. Reyna einnig að fá gesti til að koma síðar á árinu eða eiga inneign.
- Gengisbreytingar gera endurgreiðslur afbókana dýrari en ella þar sem verðlagning hefur hefur verið í erlendri mynt.
- Margir gera ekki ráð fyrir að opna aftur fyrr en í byrjun maí, jafnvel verði lokað lengur ef þarf.
- Veitingastaðir gera margir ráð fyrir að reyna að halda opnu til þess að fá inn einhverjar tekjur, þurfa hvort sem er að hafa fólk í vinnu. Þetta er að breytast mjög hratt.
- Þar sem margt er lokað er spurning hvenær og hvort innanlandaátak skilar ávinningi, það er svo lítill markaður að það svarar varla kostnaði að halda opnu nema þegar kemur fram á sumar ef erlendi markaðurinn fer að skila sér að einhverju leyti.
Ánægjulegar fréttir af flugmálum
Þrátt fyrir að staðan sé svört og nauðsynlegt að horfast í augu við hana til þess að hægt sé að grípa til aðgerða er mikilvægt að hafa í huga að þetta ástand er tímabundið. Ferðaþjónustan á Norðurlandi er vön rekstri í erfiðu umhverfi og auk þess vön því að takast á við áföll. Með samstöðu og baráttuhug er hægt að komast í gegnum þetta áfall og hlýtur markmiðið að vera það að sem flestir verði starfandi þegar ferðabönnum verður aflétt. Undirbúningur fyrir þann tíma er mikilvægur og nauðsynlegt að reyna að ná þeim tekjum sem hægt er fram að því. Við fögnum nú sérstaklega stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri sem nú er komin á áætlun og mun styðja við millilandaflug til Norðurlands.
Tvö átök í markaðssetningu
Eins og áður hefur komið fram eru á teikniborðinu tvær herferðir. Annars vegar markaðsherferð fyrir erlendan markað en Íslandsstofa heldur utanum þá vinnu. Gert er ráð fyrir 1,5 milljarði í það átak og stendur nú yfir útboðsvinna vegna þess og gert ráð fyrir að hægt verði að fara af stað um leið og opnast á ný á möguleikann á ferðalögum. Þar verðum við auðvitað í samkeppni við aðra áfangastaði sem fara af stað í markaðssetningu á sama tíma og mikilvægt að bygga á þeirri sérstöðu sem við eigum hér á landi og er eftirsóknarverð nú sem aldrei fyrr en það er ósnert náttúran og fámennið. Áhersla verður á dreifingu ferðamanna um landið.
Innanlandsátakið er einnig í undirbúningi og er það auglýsingastofan Brandenburg sem hannar herferðina fyrir Ferðamálastofu. Þar er gert ráð fyrir að fyrirtæki og sveitarfélög geti nýtt sér efnið, fái ramma fyrir sínar kynningar og geti fylgt á eftir í birtingum. Herferðin fer í loftið í maí og fram að því er mikilvægt að fyrirtæki fari yfir áherslur sínar fyrir innanlandsmarkað og sölumöguleika. Hafið einnig í huga hvernig hvetja má Íslendinga til að nýta ferðaávísun sína til kaupa á þjónustu hjá ykkur. Hjá MN erum við nú að fara yfir allt efni okkar á íslensku og hvetjum við ykkur til að senda okkur allar breytingatillögur sem þið hafið á birtingarmynd ykkar fyrirtækja á nordurland.is. Við munum leggja áherslu á kynningar á Norðurstrandarleið og Demantshringnum en íslenskar síður þessara verkefna fara í loftið innan skamms. Nánari upplýsingar um innanlandsherferðina, tímalínu birtinga og hvernig þið getið tekið þátt, sendum við ykkur um leið og við fáum þær.
Samstaða og samstarf skiptir öllu
Þrátt fyrir að ferðamenn komist ekki til okkar nú sem stendur er mikilvægt að við höldum á lofti áfangastaðnum Norðurlandi og erum við að aðlaga okkar efni að þeim veruleika sem er núna. Blaðamenn fá efni sent til sín í stað þess að koma, við búum til löngun til ferðalaga með því að birta myndir og sögur af svæðinu. Nú erum við að taka upp vetrarmyndbönd og ljósmyndir í gagnabanka og minnum á að okkar samstarfsfyrirtæki geta nýtt þann banka í sinni markaðssetningu. Við hvetjum ykkur til að halda áfram eins og hægt er að vera virk á samfélagsmiðlum og deilið endilega með okkur öllum jákvæðum sögum og verkefnum sem við getum komið út í heim með okkar miðlum. Markaðssetning má aldrei leggjast í dvala í ástandi eins og er núna, þegar lægðirnar koma er mikilvægar en nokkru sinni fyrr að halda kraftinum. Með samstöðu og samstarfi getum við skapað þann kraft og sýnileika sem þarf til að koma Norðurlandi hratt á kortið um leið og opnast fyrir ferðalög á ný. Þannig komumst við í gegnum þessa lægð sem á okkur herjar nú.
Smelltu hér til að skoða erindi frá Markaðsstofum landshlutanna til ráðherra.
Smelltu hér til að skoða minnisblað frá Markaðsstofu Norðurlands til ráðherra.