Ályktun stjórnar MN um snjómokstur á Dettifossvegi
Dettifossvegur hefur ekki verið mokaður að vetrarlagi nema tvisvar sinnum á ári, samkvæmt G-reglu Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu. Þetta er óásættanlegt og ítrekað hefur verið bent á mikilvægi snjómoksturs á þessum vegi á undanförnum árum. Lítið hefur hinsvegar breyst og í dag er staðan sú að vegurinn er ófær öðrum en þeim sem keyra um á breyttum jeppum. Dettifoss er eitt helsta aðdráttaraflið í ferðaþjónustu á Norðurlandi, enda fossinn sá aflmesti í Evrópu.
Ferðir að Dettifossi ættu ekki að vera erfiðar, því búið er að kosta miklu til við að leggja malbikaðan veg og bílastæði við fossinn. Það er hinsvegar svo að aðeins ferðaþjónustufyrirtæki sem hafa breytta jeppa geta boðið upp á ferðir að fossinum, en rekstur á slíkum bílum er sérhæfður og dýr. Það kemur ekki síst til af því að bílarnir þurfa aukið viðhald og verða fyrir skemmdum á þessum kafla sem mætti kannski frekar að búast við í þeim ferðum sem þeir eru sérstaklega hannaðir fyrir, hálendis- og jöklaferðum. Ferð að vetrarlagi að Dettifossi ætti ekki að falla í þann flokk miðað við þá innviði sem eru til staðar.
Stjórn Markaðsstofu Norðurlands skorar á stjórnvöld að tryggja fjármagn til þjónustu allt árið um kring við Dettifossveg. Sú þjónusta verður enn mikilvægari þegar búið verður að klára veginn frá Dettifossi og að Ásbyrgi. Ekki verður við það unað að sá vegur verði ekki mokaður yfir vetrartímann, enda sú framkvæmd til þess gerð að tryggja og efla samgöngur um Norðurland allan ársins hring.
Athugasemd frá Vegagerðinni: Samkvæmt G-reglunni, sem vísað er í, er heimilt að moka tvisvar í viku á haust- og vetrartímabilum á meðan „snjólétt“ er en ekki tvisvar á ári eins og fram kemur í ályktuninni. Hausttímabilið nær til 1. nóvember og vortímabil hefst 20. mars.
Nánar um G-regluna:
Heimilt er að moka tvo daga í viku haust og vor á meðan snjólétt er. Hausttímabil er skilgreint til 1. nóvember og vortímabil frá 20. mars. Ástandið er skilgreint “snjólétt” þegar um er að ræða lítið snjómagn og færðarástand telst hvergi ófært, þungfært eða þæfingur á viðkomandi leið og þegar þjónustuaðgerðin felst eingöngu í hreinsun akbrautar með snjómokstursbíl.
Heimilt er að moka vegi sem falla undir G-reglu einu sinni í viku fram til 5. janúar á kostnað Vegagerðarinnar og eftir það einu sinni í viku að beiðni og gegn helmingagreiðslu frá sveitarfélagi þannig að fært sé fyrir fjórhjóladrifin ökutæki og/eða þegar kostnaður við þann mokstur er að jafnaði ekki meiri en þrefaldur sá kostnaður sem til fellur þegar leiðin telst snjólétt. Vegagerðin metur hvort viðkomandi mokstur sé raunhæfur m.t.t. notagildis og kostnaðar.