Ambassador býður upp á ferðir til Hríseyjar
Hvalaskoðunarfyrirtækið Ambassador býður nú upp ferðir til Hríseyjar, fjóra daga vikunnar. Þessar ferðir verða farnar til móts við Grímseyjarferðir fyrirtækisins, sem eru á áætlun þrjá daga vikunnar. Siglt er á bátnum Arctic Circle klukkan 18:00 frá Torfunefsbryggju og komið til baka um 22:30.
Á leiðinni er að sjálfsögðu horft eftir hvölum, enda yfirgnæfandi líkur á því að þeir skjóti upp sporðinum. Þegar til Hríseyjar er komið tekur við traktorsferð með leiðsögn um eyjuna. Því næst er komið við í húsi Hákarla-Jörundar og þar fá gestir að njóta frásagna af Jörundi og sýningar um hákarlaveiðar.
Innifalið í ferðinni er kvöldverður í Verbúðinni 66, þar sem sjávarmeti er á boðstólum. Á meðan gestir njóta sín og matarins um leið, stíga tónlistarmenn á stokk og leika ljúfa tóna. Hægt er að fá nánari upplýsingar um þessar ferðir á heimasíðu Ambassador.