Bjóða beint flug frá Hollandi til Akureyrar
Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur nú hafið sölu á skipulögðum ferðum til Akureyrar með leiguflugi frá Hollandi. Ferðaskrifstofan áætlar að fljúga með ferðamenn yfir tvö tímabil á næsta ári, annars vegar yfir næsta sumar og hins vegar næsta vetur frá desember fram í mars.
Markaðsstofa Norðurlands og Flugklasinn Air 66N hafa leitt verkefnið, í góðu samstarfi við Isavia. Nú standa yfir viðræður Voigt Travel við ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi um samstarf við ferðaskrifstofuna og þjónustu við farþega. Ljóst er að slíkar ferðir kalla á ýmis konar þjónustu, eins og komið hefur í ljós með ferðum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break. Áhersla ferðaskrifstofunnar verður bæði á ferðalög þar sem ferðamenn keyra sjálfir á milli staða og hópaferðalög með fararstjóra. Sú fjölbreytni þýðir betri dreifingu þessara gesta um allt Norðurland, allt frá Hvammstanga til Langaness.
Voigt Travel er ferðaskrifstofa í Hollandi með 30 ára reynslu af ferðum fyrir Hollendinga á norðlægar slóðir, þ.á.m. til Finnlands, Noregs og Svíþjóðar.
Afrakstur síðustu ára að koma í ljós
Verkefnastjóri Flugklasans Air 66N hafði fyrst samband við Voigt Travel í apríl 2017 og kynnti þar möguleikann á því að fljúga beint til Akureyrar. Það var svo núna í sumar sem hjólin fóru að snúast af alvöru og síðustu mánuði hefur verið unnið mjög markvisst að undirbúningi verkefnisins, bæði hjá MN og Isavia. Svona verkefni þurfa mikinn undirbúning og hafa oftast langan aðdraganda fram að fyrstu flugferð.
„Það er ánægjulegt að geta tilkynnt um þetta, því hér er afrakstur vinnu síðustu ára að koma í ljós. Það er ljóst að beint millilandaflug á vegum ferðaskrifstofunnar Super Break frá Bretlandi til Akureyrar hefur haft jákvæð áhrif á þróun millilandaflugs um Akureyrarflugvöll og vakið athygli fleiri ferðaskrifstofa og flugfélaga á áfangastaðnum,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Flugklasans Air 66N.
Rétt að taka fram að nýlegar fréttir um að ILS aðflugsbúnaður fyrir aðflug úr norðri á Akureyrarflugvöll verði settur upp á næsta ári, hafði góð áhrif á ákvörðun Voigt Travel um að hefja sölu á ferðum til Norðurlands. Þá skipti stuðningur Flugþróunarsjóðs sköpum við að láta þetta verkefni verða að veruleika.
Tilkynning frá Voigt Travel
„Hvar finnur þú landslag með endalausu víðerni, hverum sem spýta upp heitu vatni og virk eldfjöll? Á Íslandi að sjálfsögðu! Voigt Travel hefur nú bætt Íslandi við sem áfangastað í úrval sitt á Norðurslóðum. Frá lokum maí á næsta ári mun Voigt Travel, í samstarfi við flugfélagið Transavia, bjóða upp á beint flug til Akureyrar frá Rotterdam.
Flest ferðalög á Íslandi byrja í Reykjavík. Ekki með Voigt Travel. Ferðaskrifstofan vill kynna Norðurland fyrir ferðamönnum, sem er nokkuð óþekkt í samanburði við önnur svæði á landinu. Gullni hringurinn er vel þekktur, en á eyjunni má einnig finna Demantshringinn sem fer í gegnum Mývatnssveit og jarðhitasvæðið þar, framhjá hinum ægilega Dettifossi og inn á Húsavík þar sem hvalaskoðun er upplifun sem enginn má missa af. Hér fá ferðamenn að kynnast Íslandi í sinni tærustu og bestu mynd.
„Þó að þetta sé minna þekktur áfangastaður á hinu vinsæla Íslandi, þá þýðir það í raun að hann er meira aðlaðandi í augum ferðamannsins sem vill upplifa meira en Gullna hringinn. Slíkt passar mjög vel við stefnu Voigt Travel, því markmiðið okkar er að okkar viðskiptavinir kynnist betur hinum óþekktu svæðum í Norður Evrópu með flugi beint frá Hollandi, ekki bara á veturna heldur á sumrin líka. Þegar við ákveðum að taka af skarið og hefja flug til nýrra áfangastaða þá er sjálfbærni verkefnisins líka mikilvægt. Þess vegna viljum við vinna með fólki á svæðinu og hjálpa við að byggja upp innviði fyrir ferðamenn sem nýtast allt árið um kring. Slíkt þjónar einnig hagsmunum allra svæða á Íslandi,“ segir Cees van den Bosch, framkvæmdastjóri Voigt Travel.
Voigt Travel býður þegar upp á ferðir til sex áfangastaða í Skandinavíu. Þess vegna passar Ísland frábærlega inn í úrval áfangastaða í Norður Evrópu og hjálpar ferðaskrifstofunni að ná því markmiði að verða sú stærsta í ferðum til Norðurlanda. Þar er ekki einungis að finna þekkingu og reynslu í skipulagningu á ferðum þangað, heldur hefur ferðaskrifstofan þá sérstöðu að geta ráðist fljótt í að bjóða upp á slíkar ferðir. Nú er réttur tími til að dreifa ferðamönnum betur um Ísland og með flugi til Akureyrar fá hollenskir ferðamenn að kynnast undurfagurri náttúrunni á Norðurlandi.
„Transavia er mjög stolt af samstarfinu við Voigt Travel, sem er fyrsta ferðaskrifstofan til að bjóða upp á beint flug til Akureyrar yfir sumartímann. Þetta gerir hollenskum ferðamönnum auðvelt fyrir að ferðast nær heimskautsbaugnum, á aðeins þremur tímum, bæði að sumri til og vetri,“ segir Erik-Jan Gelink, viðskiptastjóri Transavia.“