Brothættar byggðir á norðaustuhorninu- ályktun um Dettifossveg
Verkefnisstjórnir Raufarhöfn og framtíðin og Öxarfjörður í sókn sem eru hluti af Brotthættum byggðum hafa samþykkt svohljóðandi ályktun vegna Tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Brothættar byggðir eru byggðaeflingarverkefni hleypt af stokkunum árið 2012 af Byggðastofnun.
Það er mikið bakslag í þeirri viðleitni ríkis, Norðurþings, Byggðastofnunar, stoðkerfis og íbúa að styrkja samfélögin á Raufarhöfn og við Öxarfjörð undir hatti verkefnisins Brothættar byggðir, að nær engum fjármunum skuli veitt til að klára Dettifossveg á árunum 2016–2018. Verkefnisstjórnirnar skora á innanríkisráðherra og Alþingi að bæta þegar úr þessum ágalla þingsályktunartillögunnar og ætla í verkið næga fjármuni til að ljúka því eigi síðar en á árinu 2018.
Á meðan að fregnir berast um hversu mikið álag sé á helstu ferðamannastaði á suðvesturhorninu og að dreifing ferðamanna um landið þurfi að vera betri, skýtur það skökku við að taka framkvæmd af áætlun sem vissulega myndi virka jákvætt á þá dreifingu.
Rökstuðningur:
Í verkefninu Raufarhöfn og framtíðin er uppbygging ferðaþjónustu lykilatriði í að snúa vörn í sókn og skoraði næst hæst af málaflokkum sem ræddir voru á íbúaþingi. Samgöngur eru taldar afar mikilvægar í þessu samhengi og þá einkum Dettifossvegur. Það er vegtenging frá Dettifossi niður á þjóðveg 85 í Kelduhverfi.
Á íbúaþingi í samfélaginu við Öxarfjörð sem haldið var í janúar 2016 kom fram að íbúar telja Dettifossveg vera afar brýnt hagsmunamál og algjöra nauðsyn í uppbyggingu ferðaþjónustu í héraðinu. Markmiðssetning verkefnisins endurspeglar ofangreindar áherslur.
Það að hætt skuli við framkvæmdir á Dettifossvegi í miðju kafi og nær engir fjármunir ætlaðir til verksins á árunum 2016-2018 í tillögu innanríkisráðherra til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018, er í hróplegu ósamræmi við viðleitni ríkisins til að styðja þessi byggðarlög til sóknar í verkefninu Brothættar byggðir. Það er enn fremur í ósamræmi við þann grundvallarskilning á verkefninu að íbúar, stoðkerfi, sveitarfélag og ríki taki höndum saman í verkefnum til aukinnar viðspyrnu þessara byggðarlaga gegn hnignun. Þá er þessi áætlun einnig í ósamræmi við áherslur Eyþings í samgöngumálum.