Ferðamenn líklegri í hvalaskoðun á Norðurlandi
Erlendir ferðamenn sem heimsækja Norðurland eru mun líklegri til þess að fara í hvalaskoðun, heldur en aðrir ferðamenn sem koma til Íslands. Þetta er niðurstaða skýrslu sem Rannsókn og ráðgjöf ferðaþjónustunnar vann fyrir Markaðsstofu Norðurlands, upp úr árlegri könnun fyrirtækisins hjá ferðamönnum sem fara um Keflavíkurflugvöll.
Samkvæmt skýrslunni fóru 45% ferðamanna í hvalaskoðun yfir sumartímann árið 2018, en aðeins 30% af ferðamönnum almennt. Sérstaka athygli vekur að yfir vetrartímann eru ferðamenn tvöfalt líklegri til að fara í hvalaskoðun á Norðurlandi en almennt, 25% ferðamanna skoðuðu hvali yfir vetur á Norðurlandi en aðeins 12% almennt. Enn fremur var sérstaklega skoðað hversu margir gestir á Húsavík, Akureyri og Dalvík fóru í hvalaskoðun. Á Húsavík fóru 59% ferðamanna í hvalaskoðun yfir sumarið og 47% yfir veturinn. Á Akureyri fóru 45% sumargesta í hvalaskoðun og 51% sumargesta á Dalvík.
Borið saman við árið 2015, kemur í ljós að erlendir ferðamenn á Norðurlandi voru að jafnaði um 65% líklegri til þess að skoða hvali í sinni ferð um landið en hinn almenni ferðamaður á Íslandi, og því má ráða af þessu að hvalaskoðun á Norðurlandi dragi ferðamenn að verulegum mæli inn í landshlutann.