Flugstöðin á Akureyri stækkuð og flughlað byggt upp
Stækka þarf flugstöðina á Akureyrarflugvelli, sem og flughlaðið, til að betur sé hægt að sinna millilandaflugi og auknum umsvifum á flugvellinum. Þetta eru niðurstöður skýrslu aðgerðarhóps, sem hafði það verkefni að meta þörf fyrir aðstöðu og þjónustu á Akureyrarflugvelli. Í þeim er lagt til að ráðist verði í hönnun og byggingu þúsund fermetrar viðbyggingar við flugstöðina, svo hægt verði að taka samtímis á móti farþegum í innanlands- og millilandaflugi. Flughlaðið verði stækkað samhliða þessum framkvæmdum, bæði til að hægt sé að mæta auknum umsvifum og til að auka öryggi vallarins.
Í haust stóð Markaðsstofa Norðurlands fyrir ráðstefnunni „Flug til framtíðar“ um Akureyrarflugvöll og flugmál á Norðurlandi. Þar kom fram skýr þörf fyrir stækkun flugstöðvarinnar, meðal annars í máli þeirra Cees van den Bosch hjá Voigt Travel og Chris Hagan sem starfaði fyrir Super Break, sem og í niðurstöðum vinnustofu sem haldin var beint á eftir ráðstefnunni.
Í desember var síðan haldin fundur fyrir þingmenn norðaustur og norðvestur kjördæma til að ræða málefni flugvallarins og þá sérstaklega ávinninginn af millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Í kjölfarið var aðgerðarhópurinn skipaður af Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
„Tími fjárfestinga er núna og fyrir Norður- og Austurland skiptir öllu máli að vera vel í stakk búinn til að taka á móti ferðamönnum þegar Covid-tímabilið er afstaðið," er haft eftir Sigurði Inga á vef stjórnarráðsins.
Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Flugklasans Air 66N, sat í aðgerðarhópnum fyrir hönd Markaðsstofu Norðurlands sem fulltrúi ferðaþjónustunnar á Norðurlandi.
„Þetta er gríðarlegur áfangasigur fyrir okkur öll sem höfum barist fyrir uppbyggingu Akureyrarflugvallar. Stærri flugstöð gjörbreytir allri aðstöðu og er forsenda þess að hægt sé að opna raunverulega nýja gátt inn til landsins fyrir millilandaflug,“ segir Hjalti Páll.
„Uppbygging flughlaðsins samhliða stækkun flugstöðvarinnar er jafnframt afar mikilvægt skref; til þess að auka rými fyrir aukna millilandaumferð, til þess að skapa rými fyrir uppbyggingu flugtengdrar starfsemi á flugvellinum og síðast en ekki síst til þess að auka flugöryggi með því að hafa rými fyrir mun fleiri flugvélar á flughlaðinu hverju sinni,“ segir Hjalti Páll jafnframt.
Smelltu hér til að lesa tilkynninguna á vef stjórnarráðsins og skoða skýrslu aðgerðarhópsins.