Titan Airways flýgur fyrir Super Break - Tengiflug til Keflavíkur heldur áfram
Breska flugfélagið Titan Airways mun sjá um að flytja farþega á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break frá Bretlandi til Akureyrar á næsta ári. Flugmenn þess hafa þegar hafið þjálfun í flughermum og munu koma til Akureyrar til æfinga áður en flogið verður með fyrstu farþegana. Þá ætlar Air Iceland Connect að hefja tengiflug að nýju í október á þessu ári, frá Akureyri til Keflavíkur. Þetta er meðal þess sem kom fram á vorráðstefnu Markaðsstofu Norðurlands og Flugklasans Air 66N sem fór fram í Hofi á Akureyri í gær.
26% sæta þegar seld
Chris Hagan, sem hefur haft yfirumsjón með ferðum Super Break til Norðurlands, hélt erindi á ráðstefnunni þar sem hann fór yfir það hvernig ferðirnar gengu í vetur og hverjar framtíðaráætlanirnar væru. Í erindinu kom það meðal annars fram að þrátt fyrir að sex sinnum hefði verið lent í Keflavík en ekki á Akureyri eða Egilsstöðum til vara eins og lagt var upp með, hafi fjöldi kvartana verið í algjöru lágmarki. Sagði hann það til marks um það hve vel hefði verið tekið á móti bresku ferðamönnunum hér á Norðurlandi. Nú þegar er hafin sala á ferðum næsta veturs og búið er að selja 26% sætanna, og það áður en formleg markaðssetning ferðaskrifstofunnar hefst. Ljóst er því að áhugi breskra ferðamanna á þessum ferðum fer síst dvínandi.
Hvað framtíðina varðar sagði Hagan að búið væri að semja við breska flugfélagið Titan Airways um að fljúga með farþega Super Break til Akureyrar. Titan væri mun betur í stakk búið til þess að takast á við aðstæður í Eyjafirði. Bæði hefði flugfélagið öflugri flugvélar sem gætu tekið af loft til bæði suðurs og norðurs en einnig væri betur staðið að þjálfun áhafna. Áætlanir geri bæði ráð fyrir því að flugmenn verði þjálfaðir í flughermum og svo verði einnig flogið með nokkrar áhafnir til Akureyrar þar sem haldnar verði sérstakar æfingar.
Tengiflugið heldur áfram
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, var einnig með erindi á fundinum þar sem hann tilkynnti að tengiflugi á milli Keflavíkur og Akureyrar verði haldið áfram, en áður hafði verið tilkynnt um að fluginu yrði hætt. Helsta breytingin verður sú að notuð verður minni vél til verksins, en þeir farþegar sem hafa nýtt sér tengiflugið hingað til munu ekki finna fyrir miklum breytingum að öðru leyti. Í samtali við RÚV segir Árni að sætanýtingin á stóru vélunum hafi ekki verið nægjanlega góð en hann er bjartsýnn á að hún verði mun betri með minni vélum.
„Þetta eru mjög ánægjulegar fréttir, og við erum sérstaklega ánægð með að Flugfélagið sá tækifæri til þess að setja þessi flug upp aftur þar sem þau hafa nýst bæði heimafólki og ferðaþjónustu mjög vel. Nú er okkar markmið að vinna vel með Air Iceland Connect að markaðssetningu, svo að þetta tengiflug geti orðið til framtíðar,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá ráðstefnunni, en upptaka frá fundinum verður aðgengileg um miðja næstu viku.