Tveir nýir stjórnarmenn kosnir á aðalfundi
Tveir nýir stjórnarmenn voru kjörnir í stjórn Markaðsstofu Norðurlands á aðalfundi sem haldinn var á Hótel Kea fimmtudaginn 3. maí. Dagskrá fundarins var samkvæmt skipulagsskrá og hér neðst má finna tengil á glærusýningu um verkefni ársins 2017.
Kosið var um tvær stöður aðalmanna, annars vegar á Norðurlandi vestra og hinsvegar á Norðurlandi eystra. Sitthvor frambjóðandinn gaf kost á sér, og töldu þeir Viggó Jónsson og Baldvin Esra Einarsson því sjálfkjörnir. Viggó rekur Drangeyjarferðir í Skagafirði og er framkvæmdastjóri skíðasvæðisins í Tindastól. Baldvin Esra er framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Saga Travel á Akureyri.
Kosið er um hvert sæti í stjórninni til tveggja ára í senn og gáfu þær Sigríður María Róbertsdóttir frá Sigló Hótel og Sigríður Káradóttir frá Gestastofu Sútarans ekki kost á sér áfram.
Auk þess var kosið um varamenn í stjórn, en þau Þórdís Bjarnadóttir frá Höldi og Tómas Árdal frá Arctic Hotels gáfu áfram kost á sér til þeirra hlutverka. Þar sem engin mótframboð bárust töldust þau sömuleiðis sjálfkjörin.
Stjórnina skipa nú: Unnur Valborg Hilmarsdóttir frá Sólgarði Apartments, sem jafnframt er formaður, Arngrímur Arnarson frá Norðursiglingu, Edda Hrund Guðmundsdóttir frá Hótel Laxá, Viggó Jónsson frá Drangeyjarferðum og Baldvin Esra Einarsson frá Saga Travel. Varamenn eru Þórdís Bjarnadóttir frá Höldi og Tómas Árdal frá Arctic Hotels.