Viðurkenningar veittar á Uppskeruhátíð
Venju samkvæmt veitti Markaðsstofa Norðurlands þrjár viðurkenningar á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi, sem var haldin í Hörgarársveit og Dalvíkurbyggð að þessu sinni. Óhætt er að segja að hátíðin hafi í alla staði tekist vel og eru öllum þeim samstarfsaðilum færðar þakkir sem tóku vel á móti hátíðargestum, sem er sömuleiðis þakkað fyrir frábæra skemmtun í gær. Morgunljóst er að þetta er dagur sem fáir samstarfsaðilar okkar láta framhjá sér fara.
Viðurkenningarnar eru þrjár, sproti ársins, fyrirtæki ársins og störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi. Að þessu sinni var GeoSea á Húsavík valið sproti ársins, fyrirtækin Ektafiskur og Hvalaskoðun á Hauganesi fengu sameiginlega viðurkenningu fyrir fyrirtæki ársins og að lokum var það Skagfirðingurinn Evelýn Ýr Kuhne sem hlaut viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu. Hér að neðan má sjá umfjallanir um þessar þrjár viðurkenningar.
Sproti ársins
Viðurkenningin Sproti ársins er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Það fyrirtæki sem fær verðlaunin í ár er GeoSea – Sjóböðin á Húsavík.
Böðin voru formlega opnuð á síðasta ári og sjaldgæft er að sjá nýja afþreyingu slá jafn rækilega í gegn. Upplifunin er enda einstök og allar ljósmyndirnar sem hafa verið teknar af böðunum, frá öllum mögulegum sjónarhornum, sýna það einnig hversu einstök staðsetningin og hönnunin á böðunum er. Í sumar komust böðin á lista fyrir 100 bestu áfangastaði heims hjá tímaritinu Time, sem vakti enn frekar athygli á þessari spennandi nýjung í norðlenskri ferðaþjónustu. Með tilkomu GeoSea styrktist enn frekar sérstaða Norðurlands hvað fjölbreytileika í böðum varðar. Allt vinnur þetta enn frekar að því að styrkja Norðurland sem spennandi áfangastað og við óskum GeoSea áframhaldandi velgengni.
Fyrirtæki ársins
Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi. Í ár eru það tvö fyrirtæki sem fá þessa viðurkenningu sameiginlega, það eru Ektafiskur og Hvalaskoðunin á Hauganesi.
Haugnesingar hafa verið öflugir í ferðaþjónustu síðustu ár og á þessu ári hefur verið gefið enn frekar í, með tilkomu heitu pottanna í flæðarmálinu og nýrrar aðstöðu við tjaldsvæðið. Í fyrra fagnaði Hvalaskoðunin 25 ára starfsafmæli, en þetta elsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins gerir út tvo eikarbáta og býður farþegum sínum að kolefnisjafna ferðirnar sínar. Ektafiskur á sér svo enn lengri sögu, en saltfiskverkun þessa fjölskyldufyrirtækis má rekja aftur í fimm ættliði. Ferðamenn geta smakkað á saltfisknum á Baccalá Bar, sem var opnaður fyrir fáeinum árum og hefur notið vinsælda síðan.
Saman hafa þessi tvö fyrirtæki náð að þróa þjónustu sína þannig að Hauganes er orðinn eftirsóknarverður áfangastaður sem vekur athygli og umtal. Þau byggja á traustum grunni, því samfélagi og umhverfi sem er til staðar á Hauganesi en sinna á sama tíma vel þörfum sinna viðskiptavina. Samvinna fyrirtækjanna er til fyrirmyndar og sýnir vel hvaða árangri er hægt að ná með samstarfi og áherslu á að kynna einn heildarpakka þó að um tvö mismunandi fyrirtæki sé að ræða.
Störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi
Viðurkenninguna fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi fær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Í ár er það Skagfirðingurinn Evelyn Ýr Kuhne sem hlýtur þessa viðurkenningu.
Á Lýtingsstöðum hefur Evelyn, ásamt fjölskyldu sinni, byggt fyrirtækið sitt upp í 20 ár og stöðugt unnið að því að bæta þjónustuna við ferðamenn. Hestaferðir og hestasýningar eru hennar aðalsmerki en einnig er boðið upp á gistingu og skoðunarferðir með leiðsögn um torfhesthúsið sem byggt var upp fyrir örfáum árum. Aðstaðan á Lýtingsstöðum hefur verið byggð upp til þess að taka á móti hópum og er meðal annars boðið uppá hljóðleiðsögn. Í torfhesthúsinu sem byggt var skv gömlum hefðum hefur verið komið fyrir búnaði sem sýnir hvernig líf hestamannsins var fyrr á árum og hefur Horses and heritage pakki hennar þar sem boðið er upp á fræðslu um þetta vakið mikla athygli. Evelyn hefur verið öflug í að taka á móti fjölmiðlum og skapað þannig góða athygli á svæðinu. Hún er einnig drífandi fyrir fólk í ferðaþjónustu í sínu nærumhverfi, hefur stutt við samstarf á milli þess og tryggt þátttöku annarra í hinum ýmsum verkefnum. Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði hefur notið góðs af kröftum hennar um árabil og mun væntanlega áfram, enda er Evelyn stöðugt að kynna sér nýjungar og sækja fræðslu sem kemur bæði henni og kollegum til góða. Takk fyrir okkur, Evelyn!