Yfirlýsing vegna samgönguáætlunar og fjárlagafrumvarps
Markaðsstofa Norðurlands gagnrýnir harðlega frumvarp til fjárlaga sem nú liggur fyrir Alþingi. Í því frumvarpi er ekki gert ráð fyrir að fjármagna nýsamþykkta samgönguáætlun og vantar þar mikið uppá.
Markaðsstofan furðar sig á þessu misræmi sem gengur þvert gegn yfirlýsingum flestra stjórnmálamanna fyrir nýafstaðnar kosningar um nauðsyn þess að setja meira fjármagn í uppbyggingu innviða. Fyrir ferðaþjónustu á Íslandi er viðhald og uppbygging vegakerfisins og annarra samgöngumannvirkja einn mikilvægasti þáttturinn til þess að atvinnugreinin nái að vaxa og dafna öllum landsmönnum til heilla. Áframhaldandi fjársvelti til samgöngumála mun leiða til hruns í samgöngukerfinu innan skamms tíma sem mun koma hart niður á ferðaþjónustu, öðrum atvinnugreinum og íbúum landsins.
Það er með öllu óásættanlegt að enn eina ferðina sé verið að fresta framkvæmdum sem margoft er búið að setja á samgönguáætlun, en detta alltaf út vegna þess að áætlunin er ekki fjármögnuð til fulls. Dettifossvegur nr 862 er þar efstur á blaði. Ákvörðun um að draga til baka fyrri ákvörðun um fjármögnun á Dettifossvegi væri áfall fyrir ferðaþjónustuaðila í Þingeyjarsýslum og Norðurland í heild sinni. Þessi vegur liggur að aflmesta fossi Evrópu sem er eitt stærsta aðdráttarafl fyrir ferðamenn á Norðurlandi. Vegurinn er að hluta til gamall, niðurgrafinn moldarvegur sem getur alls ekki annað þeirri eftirspurn sem nú þegar er til staðar á þessu vinsæla ferðamannasvæði. Óviðunandi ástand vegarins er ekki einungis hamlandi á núverandi umferð, heldur dregur einnig verulega úr möguleikum ferðaþjónustunnar að vaxa sem skildi á þessu svæði. Það sama á við um fleiri vegi að öðrum vinsælum náttúruperlum á Norðurlandi s.s. Vatnsnesveg að Hvitserk.
Markaðsstofan skorar á Alþingi að gera nauðsynlegar breytingar á fjárlagafrumvarpi til þess að tryggja fulla fjármögnun á samgönguáætlun sem er nýbúið að samþykkja á Alþingi.
F.h. Markaðsstofu Norðurlands
Hjalti Páll Þórarinsson
Undir þessa yfirlýsingu rita einnig sérstaklega:
Guðbjartur Ellert Jónsson, Norðursigling
Gunnar Jóhannesson, Norðurhjari
Gunnar M. Guðmundsson, SBA-Norðurleið
Rúnar Óskarsson, Fjallasýn
Stefán Guðmundsson, Gentle Giants
Steingrímur Birgisson, Höldur
Sævar Freyr Sigurðsson, Saga Travel
Valdimar Halldórsson, Hvalasafnið á Húsavík
Örlygur Hnefill Örlygsson, Könnunarsögusafnið á Húsavík / Húsavík Cape Hotel