Síldarminjasafn Íslands
Síldarminjasafn Íslands er eitt af stærstu söfnum landsins. Í þremur húsum kynnumst við síldveiðum og vinnslu á silfri hafsins. Róaldsbrakki er norskt síldarhús frá 1907. Þar er flest eins og var á árum síldarævintýrisins þegar síldarfólkið bjó þar. Í Gránu er safn um sögu bræðsluiðnaðarins sem löngum var kallaður fyrsta stóriðja Íslendinga. Í Bátahúsinu liggja bátar, stórir og smáir, við bryggjur. Síldarminjasafnið hlaut Íslensku safnverðlaunin 2000 og Evrópuverðlaun safna 2004, þegar það var valið besta, nýja iðnaðarsafn Evrópu.
Síldin var einn helsti örlagavaldur Íslands á 20. öld og grunnur þess að landsmenn hurfu frá áralangri fátækt og gátu byggt upp nútíma samfélag. Atburðirnir í kring um síldina voru svo mikilvægir fyrir fólkið og landið að talað var um ævintýri – síldarævintýrið. Við hverja höfn, norðanlands- og austan risu síldarbæir stórir og smáir. Siglufjörður var þeirra stærstur og frægastur. Þótt norðurlandssíldin sé fyrir löngu horfin ber staðurinn skýr merki hinna stórbrotnu atburða síldaráranna.
Opnunartímar eru sem hér segir:
Maí og september: 13 – 17
Júní, júlí og ágúst: 10 – 17
Vetur: Eftir samkomulagi
Siglufjörður er aðeins í klukkustundar akstursfjarlægð frá Akureyri!