Frá Mývatnssveit er haldið til Húsavíkur sem er elsti bær landsins. Þessa leið má að vísu fara í báðar áttir frá Mývatnssveit, byrja á Dettifossi og enda á Húsavík eða öfugt. Hér er lagt til að byrja á Húsavík.
Á Húsavík er margt hægt að skoða og gera, meðal annars fara á Hvalasafnið, í hvalaskoðun, siglingu útí Flatey, kayak, hestaferðir, taka göngu uppá Húsavíkurfjall, fara í golf og borða góðan mat.
Eftir afþreyingu dagsing er tilvalið að fara í Sjóböðin og slaka á með stórkostlegu útsýni.
Á Húsavík eru bæði hótel og gistiheimili.
Á leiðinni í Ásbyrgi er keyrt fyrir Tjörnesið sem er einstaklega áhugaverður staður fyrir þá sem hafa áhuga á jarðfræði. Mikil jarðlög er að finna niðri við sjó á vestanverðu Tjörnesi og hafa þau verið nefnd Tjörneslög. Elsti hluti þeirra er syðstur og er um 4 milljón ára gamall en yngstu setlögin á Tjörnesi eru um 1,2 milljón ára gömul.
Á austanverðu Tjörnesinu er Hringsbjarg, þaðan er stórbrotið útsýni yfir fjallgarð Öxafjarðar og heillandi svarta strönd sem er í nágrenninu og auðvelt að komast að. Við Hringsbjarg er stór útsýnipallur, gott bílastæði og upplýsingaskilti. Þetta er hinn fullkomni staður til að stoppa og teygja úr sér, anda að sér fersku sjávarloftinu og njóta útsýnisins og kyrrðarinnar. Í bjarginu er mikið fuglalíf sem gaman er að skoða.
Þegar komið er í Ásbyrgi er gaman að stoppa aðeins í Gljúfrastofu og kynna sér örlítið hvað Ásbyrgi er, þetta mikla náttúruundur Íslands, og fá upplýsingar um þær fjölmörgu gönguleiðir sem eru á svæðinu. Njótið dagsins í stórkostlegu umhverfi þar sem krafur náttúrunnar kemur svo sterklega í ljós.
Í nágrenni við Ásbyrgi eru nokkur hugguleg gistiheimili.
Næst er komið að Dettifossi, aflmesta fossi Evrópu.
Á leiðinni eru fjölmargir áhugaverðir staðir sem gaman er að skoða. Má þar nefna stuðlabergsklettana Hljóðakletta og Hólmatungur. Að ganga um þetta svæði og meðfram Jökulsá á Fjöllum, er með því fallegra sem finnst á landinu.
Svo er það Dettifoss sjálfur, þar sem maður upplifir svo sannarlega hversu smár maður er.