Á þessu svæði er skemmtilegt að aka fram Víðidal og skoða Kolugil sem stendur við Víðidalsá. Rétt neðan við bæinn rennur áin friðsæl niður í stórbrotið gljúfur sem heitir Kolugljúfur og þar eru fossar sem kenndir eru við tröllkonuna Kolu og heita Kolufossar. Það er afar áhrifamikið að ganga út á útsýnispallinn við gljúfrið og sjá hina friðsælu á steypast fram í svo mikilfenglegum fossum. Í Víðidal eru jafnframt hægt að fara á hestbak og heimsækja dýrin á Stóru-Ásgeirsá.
Áfram er haldið og næst er stöðvað við Þrístapa, þar sem síðasta aftaka á Íslandi fór fram. Það er stutt gönguleið að staðnum þar sem Agnes og Friðrik voru hálshöggvin árið 1830 og hefur mikil og flott uppbygging átt sér stað á Þrístöpum sem segir þeirra sögu.
Nú er ekki úr vegi að keyra að Þingeyrum og skoða hina fallegu Þingeyrarkirkju sem er byggð úr steini og var vígð árið 1877. Þingeyrar er merkilegur staður því þar var fyrsta munkaklaustur íslands stofnað árið 1133.
Vatnsdalshólar eru meðal þriggja náttúrufyrirbæra á Íslandi sem eru sögð óteljandi. Hólarnir eru einkennilegir ásýndum og margbreytilegir að lit og lögun. Talið er að þeir hafi orðið til við jarðskrið úr Vatnsdalsfjalli fyrir um 10.000 árum síðan.
Skemmtilegt er að keyra hring inn í Vatnsdalinn og meðfram hinni vinsælu laxveiðiá, Vatnsdalsá. Fyrir miðjum dal er alldjúp, sérkennileg smátjörn sem nefnist Kattarauga, á henni eru tvær fljótandi eyjar og er hún friðlýst náttúruvætti. Það er gistiheimili í Vatnsdalnum og um að gera að taka sér góðan tíma í að skoða þetta fallega landsvæði sem er svo ríkt af sögu og menningu.
Þegar komið er aftur inná þjóðveginn er ferðinni haldið áleiðis til Blönduóss.
Á Blönduósi er að finna ýmsa afþreyingu sem hentar vel fyrir alla fjölskylduna. Stórkostleg sundlaug, útileiksvæði, veiði í ám og vötnum, ganga um gamla bæinn, leika í fjörunni, fara í göngu útí Hrútey og margt fleira. Heimilisiðnaðarsafnið er einn af helstu seglum svæðisins en þar er að finna hluta af atvinnusögu þjóðarinnar.
Hægt er að gista á Blönduósi eða halda aðeins áfram og enda á Skagaströnd um kvöldið. Þar er tilvalið að taka miðnætursólargöngu um Spákonufellshöfða sem hinn fullkomna endi á deginum.
Gistiheimili og hótel eru á Blönduósi og Skagaströnd, auk veitingastaða.