Fréttaskot - Styttist í Arctic Coast Way
Skráning samstarfsfyrirtækja í Arctic Coast Way hefst í næstu viku og verður hún nánar auglýst á allra næstu dögum. Verkefnið hefur vakið mikla athygli bæði hérlendis og erlendis en leiðin verður formlega opnuð þann 8. júní næstkomandi, á Degi hafsins.
Nýr starfsmaður
Katrín Harðardóttir hefur jafnframt verið ráðin til starfa hjá Markaðsstofunni, en hún mun verða Christiane Stadler, verkefnastjóra ACW, innan handar auk þess að sinna ýmsum öðrum verkefnum. Við bjóðum Katrínu velkomna til starfa aftur hjá Markaðsstofunni en hún vann hér frá 2006-2012 og hefur síðan þá verið hjá Saga Travel og Iceland Travel. Katrín er með B.s. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri, með áherslu á ferðaþjónustu.
Ferðamönnum fjölgar yfir veturinn
Eins og undanfarin ár hefur Markaðsstofan fengið skýrslu frá Rannsóknum og ráðgjöf um komu erlendra ferðamanna til Norðurlands, þar sem farið er yfir árið 2018. Í skýrslunni sést meðal annars aukning í komu ferðamanna yfir veturinn. Norðurlandi er skipt upp í fjögur svæði í skýrslunni, sem sjá má með því að smella hér.
Markaðssetning safna og setra á Norðurlandi
Þriðjudaginn 26. mars næstkomandi stendur Markaðsstofan fyrir fundi á Greifanum á Akureyri, þar sem farið verður yfir samstarf í markaðssetningu á söfnum og setrum á Norðurlandi. Þangað verða forstöðumenn safna og setra á Norðurlandi sérstaklega boðaðir, en fundurinn verður á milli 13 og 16. Hægt er að skrá sig á fundinn með því að senda tölvupóst á bjorn@nordurland.is eða hringja í síma 462-3300.
Einnig minnum við á könnunina sem send var í tölvupósti til allra samstarfsfyrirtækja okkar, sem er gerð í tengslum við markaðsrannsóknina sem Björn H. Reynisson leiðir og RMF og Háskólinn á Hólum vinna fyrir MN. Frestur til að svara könnuninni er til 22. mars.
Ferðakaupstefnur erlendis
Starfsmenn Markaðsstofunnar hafa verið duglegir við að sækja ráðstefnur og ferðakaupsýningar í Evrópu. Halldór Óli fór á vinnustofu í London í febrúar, Hjalti Páll sótti hollensku sýninguna Vakantieburs í janúar þar sem Voigt Travel var með stóran bás og Norðurland mjög áberandi. Markaðsstofan var svo að venju á Mid-Antlantic í Reykjavík í byrjun febrúar og að lokum hélt Arnheiður til Berlínar í síðustu viku þar sem ITB fór fram, en sú ferðakaupstefna er ein sú elsta og stærsta í heimi. Þangað hélt hún með markaðsefni á þýsku, með sérstaka áherslu á Arctic Coast Way. Gaman er að segja frá því að allt það efni, bæklingar og fleira, kláraðist og því áþreifanlegur áhugi á Norðurlandi sem áfangastað.
Uppfært markaðsefni frá samstarfsfyrirtækjum
Markaðsstofan minnir samstarfsfyrirtæki á að gott er að senda okkur reglulega uppfært markaðsefni, upplýsingar um viðburði eða hvað annað sem þið viljið koma á framfæri. Við fáum stöðugt fyrirspurnir um slíkt efni, tökum það með okkur á ferðakaupstefnur erlendis og dreifum því líka til ferðaskrifstofa, blaðamanna og almannatengslaskrifstofa sem við vinnum með í gegnum Íslandsstofu. Allt myndefni, sem okkur er heimilt að dreifa, er þegið með þökkum eins og raunar allt markaðsefni.