Super Break auglýsir Norðurland í bresku sjónvarpi
Breska ferðaskrifstofan Super Break hóf í dag sýningar á nýrri sjónvarpsauglýsingu, þar sem ferðir með beinu flugi á Norðurland eru auglýstar. Sem kunnugt er skipulagði Super Break ferðir með beinu flugi til Akureyrar síðasta vetur og hefur hátt í tvöfaldað þann fjölda ferða sem farnar verða í vetur miðað við þann síðasta. Myndefnið er fengið frá Markaðsstofu Norðurlands, úr okkar eigin auglýsingu sem Tjarnargatan framleiddi fyrir okkur og við frumsýndum um miðjan ágúst. Útkoman er stórgóð og mikið er lagt í að auglýsingin fari sem víðast um Bretland enda er flogið frá flugvöllum um landið allt. Norðurland fær því frábæra auglýsingu sem áfangastaður.
Í fréttatilkynningu frá Super Break segir talskona fyrirtækisins, Katherine Scott: „Nýjasta sjónvarpsauglýsingin okkar sýnir aðeins brot af þeim upplifunum og stórbrotnu landslagi sem þarna er að finna. Ferðir okkar til Íslands eru ótrúlega spennandi og við erum virkilega ánægð með að geta, í fyrsta sinn, farið með breska ferðamenn í beinu flugi til Norðurlands á þennan hátt og gefa þeim tækifæri til að upplifa eitthvað alveg einstakt sem aðeins er í boði hjá Super Break.“