Hörgársveit
Verkefni 1: Hjólreiðar- og göngustígur
Gerð á nýjum göngu- og hjólastíg milli Lónsbakka og Þelamerkur. Markmið verkefnisins er aukið umferðaröryggi. Stuðla að bættum samgöngum fyrir bæði íbúa Hörgársveitar sem og ferðamenn sem fara gangandi/hjólandi um sveitarfélagið.
Helstu verkþættir: Hönnun, samningar við landeigendur, fullnaðarhönnun og fjárhagsáætlun auk fjármögnunar. Framkvæmdaáætlun og samningar við verktaka. Efnisöflun, lagning heitavatnslagna og lagning göngu- og hjólastígs ofan á lagnirnar.
Verkefni 2: Hraun í Öxnadal
Gerð deiliskipulags og framkvæmdir á Hrauni í Öxnadal, fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar. Markmið verkefnisins er að varðveita Hraun í Öxnadal og gera svæðið og fólkvanginn í Hrauni aðgengilegri ferðamönnum og gestum með bættum gönguleiðum, vegum, upplýsinga- og söguskiltum.
Helstu verkþættir: Gerð deiliskipulags fyrir jörðina og hluta fólkvangsins. Framkvæmd á svæðinu, s.s. lagfæring á heimreið, gerð bílastæðis, merkja gönguleiðir og laga gönguleiðir og einnig framkvæmdir á byggingum svæðisins.
Verkefni 3: Davíðslundur
Endurgerð „Davíðslundar“ - minningarreits um Davíð Stefánsson þjóðskáld, við Fagraskóg í Eyjafirði. Meginmarkmið verkefnisins er efling menningarferðaþjónustu á Norðurlandi. Lagfæra á og endurgera „Davíðslund“, minningarreit um Davíð Stefánsson þjóðskáld, Fagraskógi við Eyjafjörð: Ráðist verði í deiliskipulagsvinnu, endurhönnun garðsins, bætt aðgengi fatlaðra og ferðamanna, framkvæmd nauðsynlegra viðgerða brjóstmyndar og undirstöðu minnisvarða, sem og umferðarmerkingar áningarstaðarins.
Helstu verkþættir: Verkefninu er skipt í þrjá hluta: 1. Deiliskipulagsgerð. 2. Endurbætur á minnisvarða og minningargarði. 3. Bílastæði, ný aðkoma og aðgengi allra tryggt.
Verkefni 4: Torfbærinn Baugasel í Barkárdal
Viðgerð og viðhald á torfbænum Baugaseli í Barkárdal. Markmið verkefnisins er að varðveita og viðhalda torfbænum Baugaseli. Torfbærinn skapar sérstöðu og aðdráttarafl fyrir Hörgársveit og er markmiðið að tryggja að hann geri það áfram um ókomna tíð svo komandi kynslóðir geti heimsótt bæinn og notið hans á öruggan hátt.
Helstu verkþættir: Endurhlaða þarf ytri torfveggi, bæði að sunnan og norðan. Einnig þarf að endurgera 4 metra kafla af bæjargöngum, laga veggi í tveimur herberjum að auki og bæta við gluggum til þess að fá betri lýsingu inn. Einnig þarf að bæta loftræstingu, endurnýja þarf lofttúður á öllum þökum til þess að koma í veg fyrir raka og myglu. Byggja þarf kamar við torfbæinn, og endurnýja girðingu í kringum hann. Merkja þarf gönguleiðir í kringum Baugasel ásamt því að hanna skilti með upplýsingum um torfbæinn og umhverfi hans.
Verkefni 5: Áningarstaðir á söguslóðum í Hörgársveit
Uppbygging áningarstaða á söguslóðum í Hörgársveit. Markmiðið með verkefninu er að varðveita menningararf sveitarfélagsins og efla menningarferðaþjónustu í Hörgársveit, með sérstakri áherslu á að koma Myrká á kortið sem áningarstað í Hörgársveit og á sama tíma vekja athygli á þjóðsögunni um Djáknann á Myrká. Dæmi um aðra staði eru Skipalón og Hlaðir.
Helstu verkþættir: Kortleggja sögustaði í sveitarfélaginu og setja merkingar á þeim stöðum.