Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Langanesbyggð

Verkefni 1: Uppbygging við Stóra Karl

Á Skoruvíkurbjargi er einstakur útsýnispallur, Járnkarlinn, sem stendur út af bjarginu þar sem sjá má yfir klettadranginn Stóra Karl en þar er fágætt súluvarp og fjölda bjargfugla og stórfenglegt útsýni á hafút. Bæta þarf aðgengi við útsýnispallinn. Afmarka þarf bílastæði til að koma í veg fyrir hættu þegar ferðamenn stoppa út í vegkanti til að ganga út á pallinn. Að keyra að útsýnispallinum er 45 mínútna keyrsla og engin salerni á Langanesinu það er því mikilvægt að koma upp almenningssalerni. Þá er nauðsynlegt að setja niður upplýsingaskilti um þá bjargfugla sem má sjá þegar horft er yfir Stóra Karl.
Helstu verkliðir: Afmarka bílastæði, útbúa almenningssalerni, setja niður upplýsingaskilti um fuglalífið í bjarginu.

Verkefni 2: Fontur og Langanesröstin

Fontur er nyrsti oddi Langaness og stendur þar viti. Svæðið er þekkt fyrir víðfeðmt landslag, bratta kletta og fjölbreytt fuglalíf með útsýni yfir Norður- Atlantshafið sem gerir Font vinsælt stopp ferðamanna á leið sinni um Langanesið. Bílar keyra í einhverjum tilfellum að vitanum þar sem er hætta á náttúruspjöllum og töluverð fallhætta. Með afmörkun bílastæðis og skiltagerð er hægt að tryggja betri upplifun ferðamanna sem heimsækja vitann.
Helstu verkliðir: Lagfæring á bílastæði, afmörkun bílastæðis, setja niður öryggismerkingar, Setja niður upplýsingaskilti um sögu vitans og Langanesröstina.

Verkefni 3: Hæðin við Sauðanes

Á hæðinni við Sauðanes stendur Sauðaneskirkja og Sauðaneshús sem eru merkir staðir í sögu Langaness en í Sauðaneshúsi er nú safn. Á hæðinni er fallegt útsýni yfir Langanes. Einhver upplýsingaskilti um Sauðanes standa í vegkanti við afleggjara að Sauðaneshúsi og kirkju. Hætta getur skapast þarna þegar ferðamenn stoppa. Mikilvægt er að gera gott bílaplan og endurnýja skiltin sem fyrir eru sem eru orðin lúin.
Helstu verkliðir: Gera bílaplan á hæðinni við Sauðanes, endurnýja upplýsingaskilti.

Verkefni 4: Göngupallur við hafnargarðinn á Þórshöfn

Við suðurenda grjótgarðs hafnarinnar á Þórshöfn er búið að útbúa lítið útskot og upplýsingaskilti um höfnina enda fallegt útsýni yfir hafnsækna starfsemi á Þórshöfn frá þessu stað. Framtíðarplön snúa að því að gera bílastæði þar sem núverandi útskot er og 400 m göngupall út á hafnargarðinn með útsýnispalli við endann með stórfenglegu útsýni yfir hafið, þorpið og höfnina.
Verkið er skipt í þrjá áfanga: Fyrsti áfangi – bílastæði við upphaf hafnargarðs, annar áfangi – 200 m pallur út á hafnargarðinn, þriðji áfangi – 200m pallur til viðbótar út á enda hafnargarðsins.

Verkefni 5: Gönguleið að Draugafossi

Draugafoss er í nágrenni við Bakkafjörð, er 10-15 m og er í 800m göngufjarlægð frá vegi. Leiðin er stikuð. Hætta getur skapast þegar ferðamenn leggja út í vegkanti. Mikilvægt að gera gott útskot með upplýsingum um gönguleiðina og upplýsingaskilti.
Helstu verkþættir: Gera lítið bílastæði við upphaf gönguleiðar, setja niður upplýsingaskilti um gönguleið og fossinn.