Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Norðurþing

Norðurþing

Verkefni 1: Heimskautsgerðið á Raufarhöfn

Að ljúka uppbyggingu Heimskautsgerðisins sem hefur verið í byggingu hátt í tvo áratugi. Fullklárað verk getur haft mikið aðdráttarafl líkt og Stonehenge í Bretlandi og skipt sköpum fyrir byggð á Raufarhöfn og nágrenni.
Helstu verkliðir: Skúlptúrar innan gerðisins, helluleggja gólfflötinn, hlaða vegg utan um gerðið og ganga betur frá móttökuaðstöðu fyrir ferðamenn.

Verkefni 2: Botnsvatn, afleggjari frá Þeistareykjavegi

Mótun nýrrar aðalleiðar að Botnsvatni, sem er vel þekkt útivistarperla meðal heimafólks og mikið nýtt einnig af ferðafólki. Markmiðið er að gera nýjan afleggjara frá Þeistareykjavegi að Botnsvatni. Greiðari leið en núverandi vegur sem er mjög slæmur og barn síns tíma.
Helstu verkliðir
: Útbúa þarf bílastæði og göngustíg auk útsýnispalls og upplýsingaskiltis.

Verkefni 3: Gönguparadísin Húsavík, viðhald göngustíga og merkingar

Gönguparadísin Húsavík, viðhald á göngustígum og merkingar í takt við gönguleiðakort á heimasíðu Norðurþings. Markmið verkefnisins er að viðhalda stígagerð sem ráðist var í af miklum myndarskap í kringum aldamót. Mikill áhugi er hjá ferðafólki á að nýta gönguleiðir í bland við stóraukna notkun heimafólks.
Helstu verkliðir: Breikkun á gönguleiðum og lagning efnis í gönguleiðir auk merkinga.

Verkefni 4: Kópasker, göngustígar og merkingar

Breikkun og lagning malarefnis í gönguleiðir á Kópaskeri, auk merkinga. Markmið verkefnisins er að merkja og viðhalda stígum í og við þorpið. Kópasker býður upp á mjög fallegar gönguleiðir sem merkja þarf betur fyrir íbúa jafn sem ferðamenn á svæðinu.
Helstu verkliðir: Breikkun stíga og lagning malarefnis þar sem við á. Stígar utan við þorpið verða merktir betur svo notendur eigi auðveldara með að fylgja fyrirfram ákveðinni gönguleið. Uppsetning skilta innan þorpsins á völdum stöðum þar sem fram koma tegundir fugla, sela og annarra dýra sem koma má auga á við gönguleiðina. Tengja nýlegt Fuglaskoðunarskýli frá Fuglastíg á Norðausturlandi við núverandi gönguleiðir.

Verkefni 5: Veggurinn, áningarstaður í Kelduhverfi

Uppbygging áfangastaðar í Kelduhverfi. Styrking á afþreyingu á Demantshringnum og einnig á Norðurstrandarleið (Arctic Coast Way). Markmið verkefnisins er að koma upp áfangastað við Vegginn í Kelduhverfi, en þar má sjá glögg merki flekaskilanna sem einkenna landið.
Helstu verkliðir: Að útbúa bílastæði, setja upp skilti með jarðfræðiupplýsingum, borð og bekki. Að merkja gönguleið undir Veggnum.