Brúnastaðir hlutu landbúnaðarverðlaunin 2025
Bændurnir Stefanía Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Ríkarðsson á Brúnastöðum í Fljótum í Skagafirði hlutu í gær landbúnaðarverðlaun ársins 2025, sem voru afhent á Búnaðarþingi Bændasamtaka Íslands. Atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, afhenti verðlaunin og sagði við það tilefni að framlag Brúnastaða til íslensks landbúnaðar væri fjölþætt og áhrifamikið.
„Þau Stefanía og Jóhannes hafa ekki aðeins aukið fjölbreytni í matvælaframleiðslu heldur einnig verið fyrirmynd í umhverfisstefnu, samfélagslegri ábyrgð og nýsköpun. Með sterkri framtíðarsýn stefna þau á að halda áfram að þróa starfsemi sína í átt að sjálfbærni og hringrásarhagkerfi, með áherslu á að tengja landbúnað, matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu á einstakan hátt. Bændurnir á Brúnastöðum eru því verðugir handhafar landbúnaðarverðlauna atvinnuvegaráðuneytisins fyrir árið 2025,“ sagði Hanna Katrín.
Í frétt frá ráðuneyti atvinnuvega má lesar nánar um verðlaunin og umsögn um Brúnastaði.
Þau Stefanía og Jóhannes voru einnig verðlaunuð á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi árið 2022, þegar þau tóku við Hvatningarverðlaunum. Í umsögn um fyrirtækið sagði meðal annars:
Á Brúnastöðum býður fjölskyldan upp á gistingu fyrir ferðamenn, er með lítinn dýragarð og framleiðir sína eigin osta úr geitamjólk, sem eru algjört lostæti. Þeir sem mættu á síðustu uppskeruhátíð muna vel eftir skemmtilegri heimsókn á Brúnastaði þar sem við fengum einmitt að smakka á ostunum og hitta geiturnar á hlaðinu, auk litla refsins sem sló í gegn. Brúnastaðir eru frábært dæmi um það hvernig það fer saman að reka býli og ferðaþjónustu. Þar fá gestir að kynnast íslenskum landbúnaði og afurðum hans, sauðfjárrækt og skógrækt en um leið fá þeir framúrskarandi og faglega þjónustu.