Jóhannes ráðinn sem verkefnastjóri áfangastaðaþróunar
Jóhannes Árnason hefur verið ráðinn verkefnastjóri áfangastaðaþróunar hjá Markaðsstofu Norðurlands, en starfið var auglýst í sumar. Starfið er fjölbreytt og felur í sér náið samstarf við ferðaþjónustuaðila á öllu Norðurlandi að þróun og uppbyggingu áfangastaðarins.
Starfsstöð Jóhannesar verður á Akureyri og hann mun leiða vinnu við framkvæmd og innleiðingu áfangastaðaáætlunar (DMP), vinna að stefnumótun, vöruþróun, sjálfbærni og fræðslu í ferðaþjónustu ásamt margvíslegum öðrum verkefnum.
Jóhannes hefur breiðan bakgrunn, en hann er með bakkalárgráðu í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri og meistaragráðu í rekstrar- og nýsköpunarstjórnun frá Álaborgarháskóla. Hann hefur víðtæka reynslu af störfum tengdum kynningarmálum, þar sem hann hefur m.a. stýrt kynningarherferðum og leitt hugmyndavinnu, bæði sjálfstætt og fyrir auglýsingastofurnar Vorar, EXPO og Vatikanið, auk þess að hafa um tíma starfað sem kynningar- og markaðsstjóri Menningarfélags Akureyrar. Jóhannes hefur auk þess starfað sem verkefnastjóri stafrænnar þróunar hjá Borgarbókasafninu og verkefnastjóri kynningarmála og viðburða hjá Amtsbókasafninu á Akureyri, auk þess að hafa starfað við efnisframleiðslu og samfélagsmiðlaumsjón hjá Höfuðborgarstofu. Nú síðast starfaði Jóhannes sem sölu- og markaðsfulltrúi hjá sprotafyrirtækinu MýSilica.