Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Leyndarmál Norðurlands

Markaðsstofan vinnur nú að því að undirbúa kynningarherferðir haustsins, en sérstök áhersla verður á innlendan markað eins og undanfarna mánuði.

Markaðsstofan vinnur nú að því að undirbúa kynningarherferðir haustsins, en sérstök áhersla verður á innlendan markað eins og undanfarna mánuði. Ein af þeim hefur vinnuheitið „Leyndarmál Norðurlands“ en markmiðið með henni er að kynna bæði áfangastaðinn Norðurland en einnig samstarfsfyrirtækin okkar. Þetta er gert með persónulegri hætti en oft áður, því nú köllum við eftir leyndarmálum sem þið lumið á eða getið búið til í kringum eitthvað skemmtilegt hjá ykkur eða á ykkar svæði.

Birtingin verður þannig að sett verður inn mynd á samfélagsmiðla og á sérstaka undirsíðu um verkefnið á vefsvæðinu nordurland.is. Við textann birtist örstutt kynning á þeim einstaklingi sem deilir leyndarmálinu og fyrirtækinu sem hann vinnur hjá eða rekur. Textinn verður svo sömuleiðis birtur við skráningu fyrirtækisins á nordurland.is. Við hvetjum ykkur því einnig til að fara í gegnum ykkar skráningu á heimasíðunni nordurland.is.

Markmiðið er að birta fyrstu færslurnar í byrjun október.

Til að taka þátt er smellt á hlekkinn hér neðst, þar sem er að finna eyðublað sem þarf að fylla út.

Í eyðublaðinu þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram.

  • Nafn á fyrirtækinu
  • Nafn einstaklings sem segir frá leyndarmálinu
  • Netfang
  • Örstutt lýsing á fyrirtækinu og einstaklingnum, 2-3 línur.
  • Eitt leyndarmál þess starfsmanns (getur tengst mat, stað, upplifun og svo er hægt að benda á annað fyrirtæki sem er í samstarfi við MN eða bara hvað sem er)
  • Mynd af einstaklingi sem er tekin lóðrétt. Myndina má taka hvort sem er á myndavél eða góðan síma, en gæta þarf sérstaklega að fókus og að viðkomandi sé ágætlega lýstur. Gott er að nýta náttúrulega birtu og standa við glugga eða úti. Neðst má sjá dæmi um hvernig myndirnar gætu litið út.

Hér er dæmi um texta og nokkrar útfærslur á leyndarmálum. 

„Ég heiti Sigga og hef rekið veitingastaðinn Norðurland sem er á Víkurfirði í 8 ár. Norðurland er vinsæll meðal heimamanna með fjölbreyttan matseðil með fersku hráefni úr nærumhverfinu.“

Dæmi um leyndarmál:

1: „Uppáhalds rétturinn minn er fiskisúpan – þetta er gömul uppskrift frá ömmu kokksins og samkvæmt henni á að nota jurt sem mikið vex af hér í kring og erfitt er að finna annarsstaðar. Hún gefur einstakt bragð!“

2: „Hér rétt fyrir utan bæinn er lítið og áhugavert safn sem sýnir vel hvernig lífið var hér í sveitinni á árum áður. Ég vísa öllum mínum gestum á þetta safn og þar er hægt að finna einstakan upphlut sem var saumaður hér fyrir meira en 100 árum síðan.“

3: „Fyrir neðan bæinn er falleg fjara og þegar gengið er eftir henni í norðurátt í um 15 mínútur, kemur maður að fossi sem ég kalla leynifoss, því hann sést ekki frá bænum og fáir vita af honum. Þar er tilvalið að rölta bæði sumar sem vetur og njóta náttúrunnar.“

Smelltu hér til að senda inn leyndarmál: https://www.northiceland.is/is/moya/formbuilder/index/index/okkar-leyndarmal

H
ér að neðan má sjá dæmi um hvernig myndirnar eiga að líta út.