Merkigil í Austurdal
Ég heiti Ingibjörg Elín og starfa sem verkefnastjóri og leiðsögumaður hjá SBA-Norðurleið. Ég er fædd og uppalin í Skagafirði og því er mér sérstaklega ljúft að segja frá einum af mínum uppáhaldsstöðum þar sem er Merkigil í Austurdal. Staðurinn er magnaður, náttúran hrikaleg og sagan vitnar um harða lífsbaráttu fólksins sem þar bjó. Um hálftíma akstur er frá þjóðvegi 1 fram Kjálka eftir vegi 759. Vegurinn endar á bílastæði við upphaf gönguleiðarinnar sem liggur yfir gilið og heim að bænum Merkigili sem hefur verið í eyði frá árinu 1997. Frá bænum er hvort heldur sem er hægt að ganga sömu leið til baka eða halda áfram að brúnni yfir Austari-Jökulsá sem oft er kölluð Monikubrú. Á leiðinni er tilvalið að rifja upp sögu Moniku Helgadóttur húsfreyju á Merkigili en um einstaka ævi hennar má lesa í bókinni Konan í dalnum og dæturnar sjö sem Guðmundur G. Hagalín skrifaði og var gefin út árið 1954.
----------------------------------
SBA-Norðurleið er rótgróðið fyrirtæki í fólksflutningum sem er með yfir 80 hópferðabifreiðar í rekstri. Starfsemin er fjölbreytt og sumarið 2020 var bryddað upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á dagsferðir um perlur Norðurlands með leiðsögn á íslenska, en þær verða aftur í boði í sumar.