Samantekt frá Vestnorden
Ferðasýningin Vestnorden var haldin með breyttu sniði 7. október síðastliðin. Sýningin átti að fara fram á Reykjanesi í ár en vegna aðstæðna var hún færð í rafrænt form og verður haldin á Reykjanesi á næsta ári. Hátt í 200 fyrirtæki tóku þátt í sýningunni og var Markaðsstofa Norðurlands þar á meðal.
Sýningin sjálf tókst vel og þótti flestum þetta fyrirkomulag vera betra en þeir áttu von á. Markaðsstofan átti 21 fund með ólíkum aðilum allsstaðar að úr heiminum og voru skilaboðin mörg hver nokkuð svipuð.
Staðan hjá flestum var þannig að ekki hefur verið mikið um seldar ferðir síðasta misserið þó svo að eitthvað af glæðst úr sumrinu. Flestir ef ekki allir voru í skertu starfshlutfalli og voru færri starfsmenn hjá ferðaskrifstofunum en áður.
Stóra verkefnið núna er að undirbúa sumarið. Fáir reikna með viðskiptum í vetur en margir eru að skipuleggja vorið 2021 og allir sumarið 2021. Sumir nefndu að þeirra kúnnar ættu ekki lengur inni frídaga á þessu ári til þess að ferðast því erfitt að reikna með viðskiptum 2020 ef aðstæður myndu breytast hratt. Sú staðreynd að ferðamaður frá, til dæmis, Þýsklandi þarf að verja 14 dögum í sóttkví í heimalandinu og 5 dögum á Íslandi gerir honum erfitt fyrir að hugsa um ferðalög á næstunni. Það sama á við um marga aðra markaði.
Breytt ferðamynstur kom sterkt fram í umræðunni. Margir reikna með lengri ferðum og vilja fjölga nóttum á Norðurlandi. Sérstaða svæðisins er meðal annars sú að hér er mikið í boði en ekki mikill fjöldi á hverjum stað, hverju sinni.
Markaðsstofan kynnti nýja handbók fyrir ferðaskrifstofur í tengslum við Norðurstrandarleið og sagði frá nýjungum eins og handbók fyrir ferðaskrifstofur vegna Demantshringsins og möguleikunum sem myndast í tengslum við verkefnið Upplifðu. Norðurstrandarleið var kynnt sérstaklega og sérstaða hennar vakti lukku þar sem víðerni, sjálfbærni og upplifanir þar passa vel við þær þarfir sem eru að myndast hjá skrifstofunum. Kannanir Markaðsstofunnar sýna að reikna má með góðu þjónustuframboði á svæðinu og það þótti traustvekjandi.
Í framhaldinu af Vestnorden þá verðum við í sambandi við þessar ferðaskrifstofur og aðstoðum þær eins og kostur er með sín störf. Það er greinilega mikil ferðaþörf til staðar og í núverandi umhverfi þá eru tækifæri fyrir ferðaskrifstofur að sækja fram þar sem óvissa í tengslum við ferðalög er meiri en áður. Ferðaskrifstofur hafa þá sérstöðu að vera tryggðar samkvæmt lögum fyrir sína kúnna og það mun líklega breyta neyslumynstri ferðamanna að einhverju leiti. Við höldum áfram að sinna þessum markaði og gefum í ef eitthvað er á næstunni.