Seldum gistináttum á Norðurlandi fjölgaði árið 2018
Árið 2018 voru ónýttar gistinætur á Norðurlandi samtals 1,1 milljón en aukning upp á 1% varð á milli áranna 2017 og 2018 í fjölda seldra gistinátta í landshlutanum. Þrátt fyrir samdrátt yfir sumartímabilið, fjölgaði seldum gistináttum bæði í maí og september árið 2018 miðað við árið áður. Það sama gildir um vetrartímabilið, frá janúar – apríl og október -desember. Samkvæmt tölum sem Markaðsstofa Norðurlands hefur tekið saman er ljóst að samdrátturinn varð einungis hjá erlendum sumarferðamönnum, en seldar gistnætur til íslenskra ferðamanna hafa haldist nokkuð stöðugar síðustu ár.
Heildartölur frá Hagstofunni um gistinætur fyrir 2019 eru ekki enn tilbúnar, en þó hafa tölur fyrir seldar nætur á hótelum verið birtar. Þar heldur fjölgun seldra gistinátta áfram, um 9%.
Eins og á landinu öllu voru Bandaríkjamenn fjölmennastir í hópi erlendra ferðamanna árið 2018 en þeir keyptu samtals 187 þúsund gistinætur. Sérstaklega ánægjulegt er að gistinóttum bandarískra ferðamanna hefur fjölgað stöðugt yfir vetrartímabilið, en Markaðsstofa Norðurlands hefur lagt mikla áherslu á vetrarferðamennsku. Þjóðernin sem komu næst á eftir eru Þjóðverjar, Bretar, Frakkar, Spánverjar og Kínverjar.
Einnig var litið til fjölda launþega í ferðaþjónustu, en samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 12% allra launþega á Norðurlandi starfandi í ferðaþjónustu. Þá voru erlendir ríkisborgarar alls 16% þeirra sem hafa aðalstarf sitt í ferðaþjónustu, en það hlutfall hefur tvöfaldast frá árinu 2015.
Hér má skoða glærukynningu um gistinætur og launþega í ferðaþjónustu á Norðurlandi árið 2018.