Opið 1. júní-31.ágúst, alla daga frá 13-17.
Safnið var opnað sumarið 2009 í gömlum beitingaskúr sem heitir Hlíðarendi og var byggður um 1920 á grunni gamallar sjóbúðar. Í safninu eru ýmis veiðarfæri, munir og verkfæri sem tilheyrðu línuútgerð smærri báta á fyrri hluta 20. aldar. Þar eru m.a. bárufleygur, seilarnál, heillás, fiskasleggja, súgur, bora, fuða, hneif, pilkur, díxill og drífholt. Safnið á einnig tvo báta.
Ýmiss konar starfsemi hefur farið fram í húsinu. Þar hefur verið beitt, gert að og saltað, sofið og dansað. Við ákveðin tækifæri er að Hlíðarenda barinn bútungur og rifnir hausar og gestum boðið að smakka harðfisk gamla tímans.