Demantshringurinn formlega opnaður
Demantshringurinn var formlega opnaður við hátíðlega athöfn í gær, þegar þrír ráðherrar klipptu á borða sem var strengdur yfir nýjan Dettifossveg mitt á milli Dettifoss og Ásbyrgis. Þessi ferðamannaleið er 250 kílómetra löng og tengir saman Húsavík, Goðafoss, Mývatnssveit, Dettifoss og Ásbyrgi auk fjölda annarra einstakra áfangastaða. Ferðaþjónustufyrirtæki á þessum hring eru fjölmörg og bjóða upp á margvíslega möguleika í gistingu, afþreyingu, mat og drykk.
Nafnið Demantshringurinn hefur verið notað um árabil um þessa leið og ferðir verið seldar undir því nafni en Markaðsstofa Norðurlands hefur undanfarin misseri unnið að undirbúningi að markvissri markaðssetningu á ferðamannaleiðinni í samstarfi við Húsavíkurstofu og fyrr í vetur var nýtt merki fyrir hana kynnt. Sú vinna var unnin í samhengi við framkvæmdir við Dettifossveg en stefnt er að því að ljúka þar framkvæmdum á næstunni. Því verður hægt að keyra alla leiðin á bundnu slitlagi en í áraraðir hefur norðlensk ferðaþjónusta og fleiri kallað eftir því að vegurinn á milli Dettifoss og Ásbyrgis yrði byggður upp, en gamli vegurinn var seinfær og lokaður stóran hluta ársins.
Það var því mikil ánægja meðal viðstaddra þegar leiðin var opnuð formlega í gær. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra klipptu á borðann að loknum ræðum.
„Opnar norðausturhornið enn betur“
„Demantshringurinn gerir okkur kleift að heimsækja fjöldamargar náttúruperlur á einum degi og mun opna norðausturhornið enn betur fyrir innlendum og erlendum gestum. Það var stórkostlegt að heimsækja Dettifoss í dag en þessi samgöngubót mun verða til þess að fleiri munu heimsækja hann og aðra stórkostlega staði i þessum landshluta,“ segir Katrín.
„Stór áfangi fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi“
„Opnun Demantshringsins er stór áfangi fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi. Á óvissutímum í ferðaþjónustu er mikilvægt að huga að uppbyggingu til framtíðar. Ferðamannaleiðir á borð við þessa eru mjög góð nálgun til að vekja athygli á einstakri náttúru svæðisins. Allir sem hafa unnið lengi að þessu verkefni eiga hrós skilið. Ég gleðst fyrir hönd þeirra ferðamanna sem munu í fyllingu tímans upplifa náttúruperlur og menningu svæðisins fyrir tilstilli þessa verkefnis en hefðu mögulega annars farið á mis við þær,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Styttir vegalengdir á milli byggða“
„Með nýjum Dettifossvegi er langþráðum áfanga náð fyrir samfélagið á Norðausturlandi. Nýr heilsársvegur bætir samgöngur á svæðinu til mikilla muna og styttir vegalengdir á milli byggða. Vegurinn skapar mikil tækifæri og Demantshringurinn, stórbrotin 250 kílómetra leið um náttúru Íslands, verður fyrir vikið enn meira aðdráttarafl fyrir Íslendinga og gesti okkar í framtíðinni. Við samgleðjumst íbúum svæðisins með glæsilega samgöngubót,“ segir Sigurður Ingi.