Hugur í norðlenskri ferðaþjónustu
Meirihluti forsvarsmanna ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi telja að fyrirtæki þeirra muni komast í gegnum þá erfiðleika sem Covid-19 faraldurinn hefur orsakað. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Markaðsstofa Norðurlands stóð fyrir í ágúst.
Könnunin er svipuð þeirri sem var gerð á vormánuðum, en tilgangurinn var að sjá hvort eitthvað hefði breyst hjá fyrirtækjunum síðan þá. Heilt yfir eru niðurstöðurnar svipaðar, en þó hefur orðið sú breyting að tvöfalt fleiri ætla að fá styrki fyrir launum á uppsagnafresti. Engu að síður er tæplega helmingur fyrirtæki ekki að nýta úrræði stjórnvalda og meirihluti sagði ástæðuna vera þá að úrræði stjórnvalda henti þeim ekki.
Sem fyrr segir ríkir þó bjartsýni hjá meirihluta fyrirtækja, því samtals sögðu 76% aðspurðra að það væri líklegt eða mjög líklegt að fyrirtæki þeirra myndi lifa af það ástand sem hefur skapast vegna Covid-19. Þó hefur þeim fjölgað sem segjast óvissir um hvort fyrirtækið verði opið næstu 12 mánuði, en það fór úr 8% í 18%.
„Niðurstöðurnar eru jákvæðar eins og í vor og ánægjulegt að sjá bjartsýnina sem er ríkjandi. Það er þó umhugsunarefni sem þarf að skoða nánar hversu stór hluti getur ekki nýtt sér úrræði stjórnvalda og má velta því fyrir sér hvort það er smæð fyrirtækja, árstíðarsveiflan eða aðrar ástæður fyrir því,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
Smelltu hér til að skoða samantekt á niðurstöðum könnunarinnar.