Hvetjum Íslendinga til að ferðast innanlands
Ferðamálastofa mun nú á vordögum setja í gang átak til að hvetja Íslendinga til að ferðast innanlands í sumar og kaupa vörur og þjónustu hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Auglýsingastofan Brandenburg sér um þróun átaksins og er efni þess hugsað þannig að það nýtist fyrir alla landshluta og að ferðaþjónustufyrirtæki og fleiri geti nýtt það í sínu eigin markaðsefni.
Lendingarsíðan verður ferdalag.is sem byggir á sama gagnagrunni og vefir Markaðsstofa landshlutanna, og því afar mikilvægt að upplýsingar þar séu réttar á bæði íslensku og ensku. Samstarfsfyrirtæki Markaðsstofu Norðurlands geta sent uppfærðar upplýsingar á netfangið rognvaldur@nordurland.is.
Hér má nálgast nánari upplýsingar um átakið hjá Ferðamálastofu, bæði sérstakt kynningarbréf og einnig kynningarmyndband.
Markaðsstofa Norðurlands mun taka þátt í átakinu en hefur reyndar þegar farið af stað með vinnu við að uppfæra allt efni á íslensku og þýða það efni sem ekki var til. Á samfélagsmiðlum notum við síðuna Norðurland, til dæmis bæði á Facebook og Instagram. Þar höfum við þegar hafist handa og þessi fyrsta vika eftir páska hefur snúist um hvali og hvalaskoðun. Við munum vinna með nokkur þemu tengd náttúru og leggjum einnig sérstaka áherslu á fjölbreytileika í böðum, en hann er hvergi meiri en á Norðurlandi. Í kjölfarið kynnum við svo þéttbýliskjarnana okkar eins og við höfum gert undanfarið misseri á ensku síðunni okkar, og svo Norðurstrandarleið og Demantshringinn.
Við hvetjum okkar samstarfsfyrirtæki eindregið til þess að taka þátt í átakinu með okkur, deila því efni sem við sendum frá okkur og deila því einnig með okkur sem þið setjið sjálf inn á ykkar miðla. Sérstaklega viljum við fá að vita af viðburðum eða uppákomum sem streymt verður beint á samfélagsmiðlum - hvort sem það er fyrir íslenskan eða erlendan markað.