Nýr starfsmaður á nýrri starfsstöð
Auður Ingólfsdóttir hóf störf í vikunni hjá Markaðsstofu Norðurlands, en hún var ráðin í starf verkefnastjóra áfangastaðaáætlunar í sumar. Auður hefur síðustu daga verið á Akureyri að kynnast starfsemi MN og starfsmönnum.
„Ég er mjög spennt að hefja störf hjá MN og kynnast þeirri fjölbreytti ferðaþjónustu sem er að finna á Norðurlandi öllu, nýsköpuninni og kraftinum sem einkennir hana og einnig menningarlífinu sem er mjög líflegt. Það er gott að vera komin norður,” segir Auður.
Í dag hélt Auður á Sauðárkrók þar sem hún verður með starfsstöð, en hún mun deila skrifstofu með starfsmönnum SSNV.
„Það er ánægjulegt að fá starfsmann frá MN til að styrkja tengslin á milli svæðanna. Við bjóðum Auði hjartanlega velkomna á skrifstofuna hjá okkur,” segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV.
“Eins og aðrir starfsmenn MN mun hún sinna Norðurlandi öllu, en í samstarfi við SSNV og SSNE var ákveðið að auglýsa eftir starfsmanni sem hefði starfsstöð á svæði SSNV. Við erum mjög ánægð með að hafa fengið Auði til liðs við okkur,” segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri MN.
Á mynd, frá hægri: Auður Ingólfsdóttir, Viggó Jónsson stjórnarformaður MN, Magnús Barðdal verkefnastjóri hjá SSNV, Unnur Valborg framkvæmdastjóri SSNV, Kolfinna Kristínardóttir atvinnuráðgjafi hjá SSNV og Arnheiður, framkvæmdastjóri MN.