Stefndu Norður - Due North
Markaðsstofa Norðurlands hefur að undanförnu unnið með nýtt slagorð, bæði á ensku og íslensku. Á íslensku er það Stefndu Norður en á ensku Due North. Merkingin er sú að allar leiðir liggi norður og þá sérstaklega á meðal ferðamanna. Allir ættu að stefna norður, hvort sem er fyrir afþreyingu, upplifanir, náttúru, mat eða gistingu.
Samstarfsfyrirtæki og sveitarfélög eru hvött til að nota þetta slagorð, Stefndu Norður/Due North, í sínu markaðsefni til þess að efla allt Norðurland sem áfangastað. Slíkt má vel gera jafnvel þó verið sé að auglýsa fyrir stök svæði á Norðurlandi, því það er slagkrafturinn og samvinnan sem skilar bestum árangri.
Herferðir MN á samfélagsmiðlum í sumar, bæði innanlands og erlendis, munu innihalda þetta slagorð og fólk verður hvatt til þess að setja stefnuna norður á sínum ferðalögum. Birtingar innihalda slagorðið, það birtist á heimasíðunni okkar og einnig á leitarvefjum eftir því sem við á.
Orðanotkunin getur verið á ýmsan máta og hér að neðan eru nokkur dæmi, en þessi listi er auðvitað alls ekki tæmandi:
Leitar þú að ævintýri? Stefndu norður
Viltu skoða Skagafjörð? Stefndu norður
Stefndu norður í hvalaskoðun
Stefndu norður og njóttu náttúrunnar
Stefndu norður í sumar og upplifðu sveitarlífið á Norðurlandi
Stefndu norður og ferðastu um Demantshringinn/Norðurstrandarleið
Hér að neðan eru svo dæmi um færslu á samfélagsmiðlum.