Þrír breskir sjónvarpsþættir teknir upp á Norðurlandi
Í haust hefur efni í þrjá breska sjónvarpsþætti verið tekið upp á Norðurlandi. Þó nokkur leynd hvílir yfir þessum verkefnum, eins og venja er en þó styttist í að tveir af þessum þáttum verði sýndir.
Sá fyrsti er í þáttaröðinni Breaking Dad, sem sýndur er á stöðinni ITV og hefur um fimm milljón áhorfendur. Þátturinn verður sérstakur jólaþáttur, en hann fjallar um grínistann Bradley Walsh sem fer í ferðalög með syni sínum Bradley víðsvegar um heiminn.
Þá verður einnig gerður sérstakur jólaþáttur í þáttaröðinni Travel Man á Channel 4, sem tvær milljónir áhorfenda fylgjast með. Þar ferðast grínistinn og leikarinn Richard Ayoade um heiminn og tekur með sér gest í hvert ferðalag, fyrir hvern þátt. Þátturinn verður lengri en venjulega, þar sem hann er sérstakur jólaþáttur.
Að lokum er það þátturinn Fantastic Friends, en þetta er nýr þáttur sem ekki hefur verið sýndur áður í Bretlandi. Tvíburarnir Oliver og James Phelps, sem léku Fred og George Weasley ferðast um heiminn með mótleikurum sínum úr Harry Potter myndunum, leysa þrautir, skoða fallega staði og upplifa ævintýri. Þessi þáttur verður sýndur einhvern tíma á næsta ári en ekki er hægt að greina frá því hvar hann verður sýndur að svo stöddu.