Vetrarþjónustu mjög ábótavant við ferðamannastaði
Stjórn Markaðsstofu Norðurlands telur það óásættanlegt að vetrarþjónustu að vegum á ferðamannastöðum á Norðurlandi sé jafn ábótavant og raun ber vitni. Þetta kemur fram í ályktun sem var samþykkt á síðasta stjórnarfundi MN.
Sérstaklega er bent á vetrarþjónustu á Vatnsesvegi að Hvítserk og á Demantshringnum sem var formlega opnaður á síðasta ári, um það leyti sem nýr og uppbyggður vegur var opnaður frá Dettifossi að Ásbyrgi.
„Ástandið er í hróplegu ósamræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um að jafna árstíðasveiflu í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan hefur upplifað mikil áföll undanfarin misseri og ríður á að ryðja úr vegi hindrunum sem koma í veg fyrir viðspyrnu í greininni, enda eykur góð vetrarþjónusta líkurnar á verðmætasköpun í ferðaþjónustu. Skortur á vetrarþjónustu stofnar öryggi vegfarenda í óþarfa hættu og ætti að vera forgangsmál að bæta þar úr til að tryggja öryggi og upplifun gesta og íbúa. Stjórn Markaðsstofu Norðurlands skorar á ríkisvaldið að bæta til muna vetrarþjónustu á vinsælum ferðamannastöðum á svæðinu og horfa þar sérstaklega til nýopnaðs Demantshrings og Vatnsnesvegar að Hvítserk,” segir í ályktuninni.
Í markaðssetningu á áfangastaðnum Norðurlandi skipta samgöngur gríðarlega miklu máli og þá sérstaklega með tilliti til vetrarferðaþjónustu. Áfangastaðir á borð við Hvítserk, Dettifoss og Ásbyrgi eru eftirsóttir hjá erlendum ferðaskrifstofum og ferðamönnum allan ársins hring. MN hefur fundið fyrir þessum mikla áhuga á ferðakaupstefnum erlendis og því er til mikils að vinna að koma á bættri vetrarþjónustu á Norðurlandi.
Smelltu hér til að skoða fundargerð frá síðasta stjórnarfundi MN.