Vinnusmiðja og ferðasýning í febrúar
Markaðsstofan tók þátt í fimm landa vinnusmiðju Íslandsstofu í London í síðustu viku og átti þar mjög góða fundi með ferðasöluaðilum. Flestir töluðu um mikla aukningu í bókunum frá byrjun febrúar og mikinn ferðavilja fyrir sumarið. Ferðamannaleiðunum á Norðurlandi var vel tekið auk þess sem myndabankinn nýtist vel til kynningar. Framundan er þróun á nýjum pökkum með áherslu á Norðurland og hlakka starfsmenn MN til þess að taka á móti Bretunum í sumar og næsta vetur.
MN tók einnig þátt í rafrænu ferðasýningunni NordEuropa 2022 sem fram fór 9.-10. febrúar. Fundað var með 17 ferðaskrifstofum víðsvegar úr Evrópu, sem allar einbeita sér að því að selja ferðir til norðurhluta Evrópu. Mikill ferðavilji virðist vera meðal Evrópubúa og Ísland – og ekki síst Norðurland – kemur þar sterkt inn. Margar ferðaskrifstofur eru að leita að fleiri vörum á Íslandi til að selja og mikill áhugi er meðal þessara aðila að senda fleiri gesti norður.