Að keyra um Eyjafjarðarsveit hefur lengi verið mjög vinsæll rúntur, enda ekki skrýtið þar sem sveitin hefur uppá margt að bjóða og er ein blómlegasta sveit landsins. Það er hægt að heimsækja Jólahúsið sem er opið alla daga, skoða Smámunasafnið, fá sér heimagerðan ís, fræðast um sögu berklanna svo ekki sé minnst á alla sveitabæina sem bjóða uppá allskonar mat beint af svæðinu. Hér er hugguleg gisting í boði og nóg af mat.
Fjöldi gönguleiða um svæðið og er stígurinn milli Akureyrar og Hrafnagils tilvalinn fyrir þá sem vilja ganga, hlaupa eða hjóla í rómantísku landslagi við Eyjafjarðará.
Nú er tíminn til að prófa að keyra göngin í gegnum Vaðlaheiði, eða keyra yfir Víkurskarðið fyrir þá sem vilja njóta útsýnisins út Eyjafjörð.
Þó er mælt með því að fara út fyrir hringveginn og keyra áfram til Grenivíkur. Á leiðinni er tilvalið að stoppa við Laufás og skoða gamla bæinn þar. Nálægt Grenivík er hestaleiga og bærinn sjálfur er fallegur og skemmtilegt stopp. Á Látraströnd og í Fjörðum var byggð áður fyrr og eru þessar gömlu byggðir paradís göngumannsins og sífellt fleiri leggja leið sína á þetta svæði til að kynnast fjölbreyttri og fallegri náttúru og sögu forfeðra okkar sem bíður við hvert fótmál.