Mela- og Skuggabjargaskógur
Mela- og Skuggabjargaskógur er meðal stærstu og mestu birkiskóga landsins. Þar er birkið síst lakara en í hinum gömlu „höfuðskógum Íslands“, Hallormsstaðaskógi, Vaglaskógi og Bæjarstaðaskógi.
Vegfarendur á leið milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu sem vilja njóta landslagsins og ekki eru á hraðferð geta farið Grenivíkurveg út með Eyjafirði að austan, fram hjá Laufási og um Dalsmynni yfir í Fnjóskadal. Þar handan við Fnjóská blasir við frá þjóðveginum á alllöngum kafla einn af stórskógum Íslands, Mela- og Skuggabjargaskógur.
Engin sérstök aðstaða er til útivistar í skóginum nema það sem skógurinn býður á náttúrlegan hátt. Víða er þægilegt að ganga um vegna þess hve stórvaxinn skógurinn er og er hann að því leyti ólíkur þéttvöxnu birkikjarri sem víða má finna og gjarnan er torfært göngufólki.
Í skóginum er mjög gott berjaland og fuglalíf mikið.
Nánari upplýsingar: Mela- og Skuggabjargaskógur