Fyrsta flug vetrarins frá Amsterdam til Akureyrar
Voigt Travel hóf leiguflug til Akureyrar sumarið 2019 og var einnig með flugferðir í febrúar og mars 2020. Strax eftir að því flugi lauk skall heimsfaraldurinn á og hafa flugferðir á vegum ferðaskrifstofunnar legið niðri síðan. Nú er Voigt Travel hins vegar að taka upp þráðinn og mun bjóða upp á flugferðir tvisvar í viku í vetur, sem og vikulegt flug næsta sumar. Er þetta í samræmi við áætlanir ferðaskrifstofunnar um að fjölga farþegum á þeirra vegum í beinu flugi til Norðurlands.
Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Flugklasans Air 66N segir þetta mikinn gleðidag: „Við fögnum því mjög að Voigt Travel sé aftur kleift að bjóða upp á leiguflug beint til Norðurlands. Heimsfaraldurinn stöðvaði starfsemina tímabundið, en nú eru aftur forsendur til ferðalaga. Samstarfið við Voigt Travel hefur frá upphafi verið mjög gott og frábært að sjá leiguflugið fara aftur af stað. Voigt Travel hefur mikla trú á Norðurlandi sem áfangastað og vill halda áfram að fjölga hér gestum á þeirra vegum.“
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands tekur í sama streng: „Það er gríðarlega mikilvægt fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi að þessar flugferðir séu komnar aftur af stað. Bæði fyrir fyrirtækin sem hafa beinan ágóða af komu þessara ferðamanna, en líka fyrir ferðaþjónustuna í heild sinni. Eftir langvarandi neikvæð áhrif heimsfaraldursins eru þetta jákvæðar fréttir sem fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa á að halda. Þetta hvetur okkur öll sem störfum í greininni til að líta björtum augum til framtíðar.“
Leiguflug Voigt Travel gefur einnig ferðaþyrstum Norðlendingum tækifæri til að skreppa út fyrir landsteinana. Enn er hægt að tryggja sér miða til Amsterdam, en Ferðaskrifstofa Akureyrar annast sölu á ferðum út.