Það er auðvelt að eyða mörgum dögum á Siglufirði, sökkva sér í söguna hjá Síldarminjasafninu eða njóta afþreyingar úti í stórkostlegri náttúru Tröllaskaga.
Ólafsfjörður býr yfir fjölbreyttum afþreyingarmöguleikum, meðal annars að þeytast um á sæþotum og skoða söfn.
Lítil fiskiþorp eru einkennandi í Eyjafirði, sem gaman er að heimsækja. Dalvík býður uppá hvalaskoðunarferðir og þaðan siglir einnig ferjan Sæfari útí hina fallegu eyju Grímsey. Það er einstök upplifun að koma til Grímseyjar og sennilega ekki til betri staður til að upplifa kyrrð, orku og töfra. Þar er einnig hægt að stíga norður fyrir heimskautsbaug.
Á Dalvík er hótel og gistiheimili. Einnig er gistiheimili í Grímsey.
Það er ekkert mál að sigla útí Hrísey frá Árskógssandi og eyða tíma þar í fallegri náttúru og fuglalífi. Siglingin er einungis 15 mínútur og því hægt að koma aftur til baka samdægurs sé þess óskað. Á Árskógssandi eru einnig Bjórböðin og Bruggsmiðjan Kaldi.
Næsta þorp sunnan við Árskógssand er Hauganes með sína sjarmerandi heitu potta í fjörunni, hvalaskoðunarferðir og frábæran veitingastað.
Dagurinn getur endað á gistiheimili í sveitinni eða inni á Akureyri. Á leiðinni mælum við með að stoppa á Hjalteyri, litlu þorpi sem á sér margar faldar perlur.